Krafa til stjórnvalda um að lokið verði við tvöföldun Reykjanesbrautar frá Kaldárselsvegi að mislægum gatnamótum á Krýsuvíkurvegi er meðal þess sem kemur fram í ályktun sem lögð var fram á íbúafundi í Hafnarfirði sem fram fór í gær. Á fundinum var rætt um umferðarþunga og slysahættu á Reykjanesbraut sem liggur í gegnum bæjarfélagið.
Að sögn Haraldar L. Haraldssonar, bæjarstjóra í Hafnarfirði, liggur hönnun á tvöföldun vegarkaflans fyrir. „Það er hægt að bjóða þetta út á morgun, þess vegna. En það vantar peninginn,“ segir Haraldur í samtali við mbl.is.
Frétt mbl.is: Skora á ráðamenn að tryggja úrbætur
Meðal fyrirlesara á fundinum var Lilja Guðríður Karlsdóttir samgönguverkfræðingur sem hefur unnið ástandsgreiningu á umferð þar sem Hafnarfjörður kom upp sem svæði með miklum töfum og röðum.
Lilja fjallaði um ákjósanlegar lausnir í samgöngumálum í bænum og er ein þeirra að ljósastýring sé betri kostur en hringtorg þegar umferð er jafnþung og um Reykjanesbrautina í Hafnarfirði. „Þetta eru að vísu bara bráðabirgðalausnir og þó að maður sé ekki hrifinn af því að tala um bráðabirgðalausnir þá er ástandið bara orðið þannig að við verðum að gera það,“ segir Haraldur.
Slysatíðni á Reykjanesbraut sem liggur í gegnum bæinn og gatnamótum þar í kring er há og umferð hefur þyngst gríðarlega með auknum ferðamannastraumi. Þetta kom fram í máli Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra á fundinum, sem segir gatnamót við Krýsuvíkurveg vera í forgangi í samgöngumálum.
Haraldur tekur undir að finna þurfi lausnir til að fækka slysum á veginum sem liggur í gegnum bæinn. „Við erum með tvö slysamestu hringtorg á höfuðborgarsvæðinu auk vegarkaflans frá Kaldárselsvegi að mislægu gatnamótunum þar sem nú standa yfir framkvæmdir þar sem er bara einn vegur með akreinar í sitt hvora átt. Þarna erum við með um 28 slys á hvern kílómetra á ári. Reykjanesbrautin klýfur bæinn í sundur og stór hluti af umferðinni eru bæjarbúar í Hafnarfirði.“
Vegagerðin vinnur nú að því að finna úrbætur á þessu svæði í samráði við starfsmenn á vegum bæjarins. „Við treystum því að það sem sú vinna skili okkur séu bestu lausnirnar,“ segir Haraldur.
Haraldur tekur undir kröfurnar sem settar eru fram í ályktuninni sem var lögð fram á fundinum og segir hann að einnig sé mikilvægt að huga að framkvæmdum fram í tímann. „Við gerum kröfur til þess núna að tryggt verði að á næstu árum verði framkvæmdum við tvöföldun Reykjanesbrautarinnar í Hafnarfirði lokið. Við leggjum mikla áherslu á að þetta verði gert þannig að það komi lausnir á þessi gatnamót, annars vegar við Kaplakrika og hins vegar við hringtorgið við Setbergshverfið.“
Að því loknu segir Haraldur að vinnan haldi áfram við að hanna það sem á eftir að gera svo hægt verði að halda áfram með framkvæmdir árið 2019 og 2020.