„Ég hafna þessum 50 milljónum“

Þórunn segir að eldri borgarar hafi langflestir ekki slíka peninga …
Þórunn segir að eldri borgarar hafi langflestir ekki slíka peninga á milli handanna. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég hafna þessum 50 milljónum alveg. Þetta er ekki eitthvað sem er hér á hverju strái,“ sagði Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara, í Morgunútvarpi Rásar 2, um ummæli Brynjars Þórs Níelssonar í sama þætti í gærmorgun.

Þar sagði hann að fimmtíu milljóna viðskipti væru ekkert langt frá venjulegu fólki. „Annar hver lífeyrisþegi á kannski 50 milljónir sem menn eru að fjárfesta með. Menn eru að fjárfesta með lífeyrinn sinn sem er miklu meiri en 50 milljónir hjá venjulegu fólki,“ sagði Brynjar í umræðu um lögbannið sem Glitnir HoldCo lagði á Stundina.

Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara.
Þórunn Sveinbjörnsdóttir, formaður Landssambands eldri borgara.

Þórunn sagði að auðvitað sé til fólk sem eigi þessa upphæð í einhverjum bréfum eða í peningum en fyrst og fremst séu eignir mjög stórs hóps bundnar í fasteignum. Ekki sé hægt að losa þær nema að minnka við sig og í dag minnki fólk ekki við sig nema það kosti meira.

„Ég er ekki að sjá að fólk fari úr stóru húsnæði og eigi eftir 50 milljónir til að „gambla“ með,“ sagði Þórunn. „Auðvitað er vinnumarkaðurinn rosalega breiður en hinn almenni launþegi og meðaljón á Íslandi á þetta ekki til, það get ég fullyrt.“

Vilja eiga fyrir útförinni

Þórunn bætti við að þegar hún starfaði hjá Sókn og Eflingu hafi það verið mottó hjá eldra fólki að eiga fyrir útför sinni. „Það voru nokkur hundruð þúsund þá en í dag þarftu að eiga milljón, það var viðmið hjá mörgum.“

Hún nefndi einnig nýlegar tölur um launadreifingu hjá eldri borgurum þar sem kemur fram að um 60% þeirra fái um 350 þúsund krónur eða minna á mánuði. Ekki sé hægt að leggja fyrir af þeirri upphæð.

Brynjar Níelsson.
Brynjar Níelsson. mbl.is/Hanna
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert