Hægt væri að setja bráðabirgðalög svo Stundin og Reykjavík Media gætu borið lögbann, sem sýslumaður setti á frekari umfjöllun miðlanna, byggða á gögnum innan úr Glitni, undir dómstóla strax í upphafi næstu viku. Þetta segir Einar Gautur Steingrímsson hæstaréttarlögmaður.
„Einn möguleikinn er að setja bráðabirgðalög um að gerðarþoli, sem í þessu tilfelli er Stundin, geti borið ákvörðun sýslumanns um að fallast á lögbann, undir héraðsdóm með sama hætti og gerðarbeiðandi hefði getað gert ef lögbanninu hefði verið synjað,“ segir Einar, en gerðarbeiðandi er líkt og áður hefur komið fram Glitnir HoldCo.
Ástæða þess að Glitnir fór fram á lögbannið sú að félagið telur yfirgnæfandi líkur á því að í gögnunum sé að finna persónuleg fjárhagsmálefni þúsunda fyrrverandi viðskiptavina bankans.
„Það sem myndi gerast ef þessi leið yrði farin, þá myndi dómstóll gera eins og sýslumaður. Þegar sýslumaður fær lögbannsbeiðni þá leggur hann mat á hvort það eru skilyrði til að verða við kröfunni, hann tekur ekki afstöðu til þess hvernig málið lítur út á endanum. Dómstóll myndi því aðeins endurmeta hvort skilyrði er fyrir bráðabirgðaaðgerðum, sem lögbann er,“ útskýrir Einar. Hann segir þetta ekki óalgengt fyrirkomulag.
„Dómstólar taka afstöðu til gæsluvarðhalds og stundum er verið að sýkna menn sem settir eru í gæsluvarðhald. Það er ekki verið að taka afstöðu til sjálfs málsefnisins.“
Hann segir lögbann hugsað þannig að óbreytt ástand haldist á meðan dómstólar fjalla um málið. Það sem er sérstakt við lögbannið á Stundina er að fréttirnar verða úreltar þegar dómstólar eru búnir að fjalla um málið,“ segir Einar, en lögbannsmál getur tekið nokkrar vikur að afgreiða fyrir dómstólum.
„Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir núna er að það er tekin ákvörðun um að leggja á lögbann rétt fyrir kosningar og ekki hægt að fá úr því skorið fyrr en eftir kosningar.
Þegar lögbann er endurskoðað fyrir dómstólum þá er verið að skoða tvo þætti; hvort sýslumaður átti að leggja lögbann eins og málið lá fyrir og hvort sá sem krafðist lögbannsins átti í raun og veru þann rétt sem hann hélt fram. Með því að breyta lögum er hægt að láta dómstóla endurskoða fyrra skilyrðið strax. Það er svolítið klént að framkvæmdavaldið, sem sýslumaður er, banni tjáningu fjölmiðils rétt fyrir kosningar án þess að dómstólar komi þar nokkur staðar nærri.“
Ef Stundin gæti hins vegar fengið að bera undir dómstóla ákvörðun sýslumanns um að leggja á lögbann þá myndi dómstóll meta málið með sama hætti og sýslumaður og hægt væri að taka málið strax fyrir.
Til að þetta geti orðið þarf dómsmálaráðherra að leggja til við forseta Íslands að sett verði slík bráðabirgðalög, en það er hægt að gera þegar Alþingi er ekki starfandi. Alþingi þyrfti því ekki að koma saman til að staðfesta lögin áður en þau tækju gildi. Lögin yrðu þó lögð fyrir þingið þegar það kæmi saman á ný og þá yrði tekin ákvörðun um hvort þau yrðu felld úr gildi eða ekki.
„Svo geta menn ákveðið að svona verði þetta í öllum lögbannsmálum eða bara bundið við það þegar farið er fram á lögbann sem gæti farið í bága við tjáningarfrelsisákvæðið. Þetta er í sjálfu sér létt verk og löðurmannlegt. Það er bæði auðvelt að semja lagatextann og auðvelt að framkvæma hann.“
Einar bendir á að með því að víkka út aðgengi að dómstólum sé ekki verið að breyta neinum lögum um réttindi fólks. Það sé einfaldlega verið að leyfa dómstólum að fjalla um þau. „Þetta er ekki mikið inngrip,“ segir hann.