Opinn fundur í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis hefst klukkan 9:10. Þar verður fjallað um vernd tjáningarfrelsis. Þrír nefndarmenn kröfðust fundarins í kjölfar lögbanns sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu gegn fréttaflutningi Stundarinnar og Reykjavík Media upp úr gögnum úr gamla Glitni.
Þórólfur Halldórsson sýslumaður, Þuríður Árnadóttir, sviðsstjóri fjármála- og þjónustusviðs og staðgengill sýslumanns, og Brynjar Kvaran, sviðsstjóri fullnustusviðs, koma fyrstir gesta á fundinn.
Því næst koma Eiríkur Jónsson lögfræðingur, Hallgrímur Óskarsson, varaformaður Gagnsæis, Sigríður Rut Júlíusdóttir hæstaréttarlögmaður, Hjálmar Jónsson, formaður Blaðamannafélags Íslands, Arna Schram, nefndarmaður í fjölmiðlanefnd, og Heiðdís Lilja Magnúsdóttir, lögfræðingur fjölmiðlanefndar.
Hægt er að fylgjast með fundinum í beinni útsendingu á vef Alþingis og á sjónvarpsrás Alþingis.