Jón Gunnarsson samgönguráðherra ætlaði að halda opinn hádegisfund með Vestmannaeyingum í hádeginu í gær. Hætt var við fundinn þegar flugi var aflýst í gærmorgun og Herjólfur sigldi til Þorlákshafnar.
Flugfélagið Ernir náði svo að komast til Eyja í hádeginu en þá var búið að blása fundinn af.
Elliði Vignisson bæjarstjóri sagði það algengt að truflanir á samgöngum settu strik í reikninginn. „Ég held að það hafi verið von á gestum ofan af landi á þrjá fundi hjá Vestmannaeyjabæ í morgun. Fresta þurfti öllum fundunum vegna veðurs,“ sagði Elliði í gær. Hann sagði að röskun á samgöngum fylgdi því að búa á eyju og fólk vissi af því.
„En við erum orðin langeyg eftir varanlegri lausn í Landeyjahöfn. Þegar við ferðumst verðum við alltaf að vera með plan A, B og C og stundum gengur ekkert þeirra eftir,“ segir Elliði í Morgunblaðinu í dag. gudni@mbl.is