Er hurðin að klaustrinu fundin?

Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur hefur á síðustu árum unnið að miklum …
Steinunn Kristjánsdóttir fornleifafræðingur hefur á síðustu árum unnið að miklum rannsóknum á hinum löngu horfnu klaustrum. mbl.is/Árni Sæberg

„Það hníga veiga­mik­il rök að því að Valþjófsstaðar­h­urðin hafi í raun komið frá klaustri sem Jón Lofts­son í Odda stofnaði að Keld­um á Rangár­völl­um árið 1193.“ Þannig kemst Stein­unn Kristjáns­dótt­ir að orði þegar hún rétt­ir blaðamanni ein­tak af nýrri bók sem hún hef­ur ritað og Sögu­fé­lag og Þjóðminja­safnið gefið út. Bók­in nefn­ist Leit­in að klaustr­un­um, klaust­ur­hald á Íslandi í fimm ald­ir.

Bók­in er í raun afrakst­ur ára­langra rann­sókna Stein­unn­ar og sam­verka­fólks henn­ar á öll­um þeim klaustr­um sem heim­ild­ir herma að starf­rækt hafi verið á Íslandi á miðöld­um. Áður hef­ur Stein­unn sent frá sér verðlauna­bók­ina Sag­an af klaustr­inu á Skriðu en þar rek­ur Stein­unn forn­leifa­rann­sókn­ina sem hún stýrði á klaustr­inu.

Ný kenn­ing um upp­run­ann

Valþjófsstaðar­h­urðin sem Stein­unn vís­ar til er einn merk­asti forn­grip­ur Íslend­inga og lengi hafa vís­inda­menn velt vöng­um yfir upp­runa henn­ar. Í dag er talið víst að hurðin hafi verið skor­in út í kring­um árið 1200 en fyrr á tíð var talið að kona að nafni Randalín Fil­ipp­us­dótt­ir hefði skorið hana út. Miðað við fyrr­nefnda ald­urs­grein­ingu er það hins veg­ar talið afar ósenni­legt enda fædd­ist Randalín ekki fyrr en árið 1230.

Þrátt fyr­ir að heiður­inn af hinum tign­ar­lega út­skurði hafi því verið tek­inn af Randalín, er hún þó í raun lyk­ill­inn að þeirri kenn­ingu Stein­unn­ar að hurðin hafi upp­haf­lega komið frá klaustr­inu á Keld­um.

Sjálf­stætt höfðingj­a­klaust­ur

Keldnak­laust­ur hef­ur ekki verið talið meðal helstu klaustra sem hér voru starf­rækt enda var það starf­rækt um skamm­an tíma, frá 1193 til 1222. Það var stofn­sett af Jóni Lofts­syni, ein­um mesta höfðingja Íslands um sína daga. Klaustrið stofnaði hann í trássi við vilja Rómar­kirkj­unn­ar. Þeirri stofn­un bauð hann oft­ar en einu sinni byrg­inn en mestu átök­in urðu í hinu mikla deilu­máli sem nefnt hef­ur verið Staðamál hin fyrri.

„Jón Lofts­son and­mælti þeirri kröfu Þor­láks Þór­halls­son­ar að kirkju­staðirn­ir til­heyrðu kirkj­unni en ekki höfðingj­un­um sem þá höfðu reist. Hindraði Jón með því fram­gang bisk­ups í mál­inu,“ seg­ir Stein­unn og bend­ir á að fyr­ir vikið hafi Jón verið bann­færður af bisk­upi. Urðu þær deil­ur hat­ramm­ar og per­sónu­leg­ar enda var Ragn­heiður Þór­halls­dótt­ir, syst­ir Þor­láks, frilla Jóns og eignaðist með hon­um dreng­inn Pál. Hann varð síðar bisk­up í Skál­holti að móður­bróður sín­um látn­um.

Klaustrið leggst af

Þegar Jón lést árið 1197 tók Sæmund­ur son­ur hans við for­ræði mála á Keld­um og Stein­unn seg­ir að heim­ild­ir bendi sterk­lega til að hann hafi aukið við staðinn um sinn dag.

„Þegar Sæmund­ur lést 1122 lagðist klaustrið af og seg­ir í sögu Þor­láks helga, sem er harla traust heim­ild um þessa at­b­urði, að syn­ir hans hafi þá rifið klaustrið og skipt með sér mjög verðmæt­um viði úr bygg­ing­um þess.“

Einn fjög­urra skil­get­inna sona Sæ­mund­ar var Fil­ipp­us, faðir Randalín­ar. Vera kann að hurð klaust­urs­ins hafi fallið í hans hlut og síðar gengið til dótt­ur hans, annaðhvort sem heim­an­mund­ur þegar hún gift­ist Oddi Þór­ar­ins­syni, höfðingja á Valþjófsstað, árið 1249, eða þegar Fil­ipp­us faðir henn­ar lést tveim­ur árum síðar.“

Hin kon­ung­legu tengsl

Það lýs­ir ef­laust sjálfs­mynd Jóns Lofts­son­ar hvað best að hann var einn fárra Íslend­inga sem voguðu sér að hall­mæla sjálf­um páf­an­um í Róm. Bend­ir Stein­unn á í bók sinni að eft­ir hon­um eru höfð orðin: „hvorki páfi né hans kar­dináli myndi vita bet­ur né vilja en hinir fornu Íslend­ing­ar sem unnu þjóðfrelsi sínu og höfðu bæði vilja og góða greind á að gæta þess.“

Það kann að skýra hina sterku sjálfs­mynd Jóns og sjálf­stæði að um æðar hans rann blátt blóð. Hann var son­ur Lofts Sæ­munds­son­ar í Odda og Þóru Magnús­dótt­ur, sem var laund­ótt­ir Magnús­ar ber­fætts Ólafs­son­ar, sem var kon­ung­ur Nor­egs frá 1093-1103. Ólst Jón upp með for­eldr­um sín­um í Kon­unga­hellu til 11 ára ald­urs og var því vel sigld­ur í sam­an­b­urði við flesta samlanda sína.

Tengsl­in við hurðina

Líkt og áður grein­ir tel­ur Stein­unn sterk­ar lík­ur á því að fyr­ir til­stuðlan Randalín­ar hafi hurðin úr Keldnak­laustri komið að Valþjófsstað og verið sett upp í kirkj­unni á staðnum. En þá má spyrja hvort heim­ild­ir um dýr­mæt­an við úr Keldnak­laustri og fjöl­skyldu­tengsl Randalín­ar við klaustrið séu nægi­lega traust und­ir­staða und­ir þá kenn­ingu? Því svar­ar Stein­unn neit­andi en hún seg­ir að mun fleiri þræðir tengi hurðina við klaustrið á Rangár­völl­um.

„Eitt af því er án efa saga Jóns Lofts­son­ar og sú ætt sem hann var kom­inn af. Mynd­málið sem birt­ist á Valþjófsstaðar­h­urðinni er mögu­lega vís­un til hans. Í grunn­inn er þar um að ræða þekkt minni úr evr­ópsk­um sög­um um ljón­aridd­ara en mynd­in sýn­ir ridd­ara bjarga ljóni úr klóm dreka. Að þessi skreyt­ing hafi verið val­in á hurðina er ef­laust ekki til­vilj­un. Hún get­ur bæði vísað til Jóns sjálfs og Magnús­ar afa hans, Nor­egs­kon­ungs.“

Þannig bend­ir Stein­unn á að skjald­ar­merki Magnús­ar ber­fætts hafi verið skreytt ljóni. Seg­ir Snorri Sturlu­son svo frá í Heimskringlu að skjöld­ur hans hafi verið rauður „ok lag á með gulli léó“.

„Það er ekki ólík­legt að þegar mynd­efni var valið á hurð þess einkaklaust­urs sem Jón stofn­setti í trássi við vilja kirkj­unn­ar, hafi verið sótt í minni sem teng­ist skjald­ar­merki hins mikla for­föður hans. En meira kem­ur til. Frá­sögn­in sem slík, þar sem ridd­ar­inn legg­ur dreka í gegn með sverði sínu, vís­ar til hetju­legr­ar bar­áttu. Vel má vera að Sæmund­ur son­ur hans hafi í raun látið skera sög­una út í hurðina að Keldnak­laustri og hafi þá haft í huga það ótrú­lega af­rek föður síns fyr­ir ís­lensk ætt­ar­veldi að hafa bet­ur gegn valds­stefnu páfa.“

Í mynd­mál­inu sést hvar ljónið ligg­ur að lok­um á gröf líf­gjafa síns, ridd­ar­ans. Þar stend­ur ritað rúnaletri: „Sjá inn ríka kon­ung hér graf­inn er vá dreka þenna.“

Stein­unn seg­ir að drek­inn geti vel hafa staðið sem tákn­mynd fyr­ir páfa­valdið í huga Sæ­mund­ar og þannig hafi hann séð föður sinn, kon­ung­bor­inn ridd­ara, í föru­neyti ljóns­ins, skjald­ar­tákns kon­ungs­ins langafa hans, leggja kirkju­valdið og hafa á því full­an sig­ur.

Hún læt­ur þess einnig getið að í út­skurðinum stend­ur kirkja við gröf ridd­ar­ans og að hún kunni að vísa til frægr­ar kirkju sem Jón lét reisa á Keld­um.

„Í heim­ild­um seg­ir að hann hafi látið bera sig út í bæj­ar­dyr þegar hann var dauðvona til þess að geta litið kirkju sína. Mynd­in gef­ur þá til kynna að Jón hvíli við kirkju sína en dauðvona mælti hann til henn­ar: „Þar stend­ur þú kirkja mín. Þú harm­ar mig en ég harma þig.““

Sög­ur oft rist­ar í við og stein

Stein­unn bend­ir á að það hafi verið alþekkt á þess­um tím­um að merk­ustu menn fengju sögu sína rista í stein eða á tré. Jón hafi um sína daga verið meðal merk­ustu manna og ekki hafi það dregið úr þeirri vigt sem hann hafði í sam­fé­lag­inu að hann var barna­barn sjálfs Nor­egs­kon­ungs.

„Mörg dæmi eru um þetta og má þar helst­an nefna hinn svo­kallaða Jalang­urs­stein á Jótlandi, þann sem Har­ald­ur blátönn lét höggva af­rek sín í. Á stein­in­um er hann sagður leggja und­ir sig Nor­eg og Dan­mörku auk þess að kristna Dani.“

Seg­ir Stein­unn að mynd­málið á hurðinni hafi gert klaust­ur­h­urðina að Keld­um að mikl­um verðmæt­um fyr­ir ætt­ina alla enda hafi í hana verið greypt saga ætt­ar­höfðingj­ans og af­reka hans.

Sag­an kem­ur í ljós

Stein­unn seg­ir að sig hafi ekki grunað að leit­in að Keldnak­laustri myndi leiða hana alla leið á Valþjófsstað og að hurðinni frægu sem við staðinn er kennd.

„Það hafa ýms­ar kenn­ing­ar verið uppi um Keldnak­laust­ur og því jafn­vel haldið fram að hús þess hafi aldrei verið reist. Heim­ild­ir vísa þó í aðra átt og frá­sögn­in af hinum verðmæta viði, skrín­un­um tveim­ur, tákn­mál­inu sem hurðin geym­ir, ásamt tengsl­um Randalín­ar við staðinn hafa sann­fært mig um að þarna sé hurðin að Keldnak­laustri fund­in.“

Mynd­mál hurðar­inn­ar

Í bók­inni Þjóðminj­ar lýs­ir Mar­grét Hall­gríms­dótt­ir þjóðminja­vörður mynd­máli Valþjófsstaðar­h­urðar­inn­ar svo:

„Á efri mynd­flet­in­um er þekkt miðalda­saga í þrem­ur þátt­um. Neðst sést ridd­ari á hesti sín­um og flýg­ur veiðihauk­ur með hon­um. Ridd­ar­inn legg­ur sverði gegn­um dreka sem vafið hef­ur hal­an­um um ljón. Í næsta þætti, efst til vinstri, sést þakk­látt ljónið fylgja líf­gjafa sín­um en veiðihauk­ur­inn sit­ur á makka hests­ins. Í síðasta þætti, efst til hægri, ligg­ur ljónið á gröf ridd­ar­ans og syrg­ir hann. Í bak­sýn er lít­il staf­kirkja og á gröf­inni er rúnalet­ur þar sem seg­ir: „Sjá inn ríkja kon­ung hér graf­inn er vá dreka þenna.“

Skrín­in tvö

Aðeins hafa varðveist tvö helgiskrín frá kaþólsk­um tíma hér­lend­is. Þau eru eins, og er annað þeirra varðveitt á Þjóðminja­safn­inu og hitt á syst­ursafni þess í Dan­mörku.

Annað skrínið, sem varðveitt er ut­an­lands, kem­ur frá Keld­um og er það heilt og ber vott um ríki­dæmi staðar­ins, en hitt kem­ur frá Valþjófsstað. Er það mun verr farið.

Vera kann að það hafi verið heim­an­mund­ur Randalín­ar ásamt hurðinni merku sem hún fékk þegar hún gekk að eiga Odd Þór­ar­ins­son, höfðingja á Valþjófsstað. Það virðist senni­leg teng­ing milli grip­anna og staðanna tveggja.

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert