Færri búa í leiguhúsnæði

Færri búa í leiguhúsnæði en áður.
Færri búa í leiguhúsnæði en áður. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þeim Íslendingum sem búa í leiguhúsnæði hefur fækkað um 3,5% á síðastliðnum 12 mánuðum. Á móti hefur þeim sem búa í foreldrahúsum fjölgað um tæp 2 prósentustig.

Þetta kemur fram í nýrri skoðanakönnun MMR.

Alls sögðust 18,3% búa í leiguhúsnæði nú samanborið við 21,8% árið 2016 og 10% bjuggu í foreldrahúsum samanborið við 8,1% árið 2016.

Þá sögðust 69,9% búa í eigin húsnæði sem er aukning um 1 prósentustig frá síðustu mælingu MMR.

„Ef þróun yfir tíma er skoðuð má sjá að þeim sem bjuggu í eigin húsnæði hefur fækkað um tæp 2 prósentustig frá því að mælingar hófust árið 2013. Hlutfall þeira sem bjuggu í foreldrahúsum mældist 9,1% í september 2013 en mældist 10,0% í september 2017. Sú fjölgun sem varð í fjölda fólks sem kvaðst búa í leiguhúsnæði síðastliðin tvö ár virðist nú að mestu gengin til baka og segist nú svipaður fjöldi búa í leiguhúsnæði og var árið 2013,“ segir í tilkynningu frá MMR.

Minna öryggi

Þar kemur fram að greinileg fækkun hafi átt sér stað í fjölda þeirra leigjenda sem segist búa við mjög öruggan leigusamning. Þeim hefur aftur á móti fjölgað sem setjast búa við frekar örugga leigu.

Af þeim sem sögðust búa í leiguhúsnæði töldu 81% að húsnæðið sem þau bjuggu í vera öruggt, sem nemur um fimm prósentustiga lækkun frá september 2013 þegar hlutfall þeirra sem töldu húsnæði sitt vera öruggt mældist um 86%.

Hlutfall þeirra sem töldu líklegt að þeir myndu missa húsnæði sitt mældist 19%. Þar af voru 10% sem töldu það mjög líklegt, á móti 9% sem töldu frekar líklegt að þeir misstu húsnæðið.

37% fólks 18-29 ára í foreldrahúsum

Fólk á aldrinum 18 til 29 ára var líklegra en fólk í öðrum aldurshópum til að búa í leiguhúsnæði. Þannig bjó 38% fólks á aldrinum 18 til 29 ára í leiguhúsnæði, samanborið við 4% þeirra sem voru 68 ára og eldri. Jafnframt sögðust 37% fólks á aldrinum 18 til 29 ára búa í foreldrahúsum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert