Grátbiðja um að fá að vera hér áfram

Sobo Anw­ar Has­an, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim.
Sobo Anw­ar Has­an, Leo Nasr Mohammed og Nasr Mohammed Rahim. mbl.is/Árni Sæberg

„Við viljum bara búa á Íslandi,“ segir Nasr Mohammed Rahim. Blaðamaður hittir hann, eiginkonu hans, Sobo Anwar Hasan, og ungt barn þeirra í Vesturbæ Reykjavíkur þar sem þau dvelja. Dvölinni lýkur þó eftir nokkra daga en umsókn þeirra um hæli á Íslandi var endanlega hafnað fyrir tveimur vikum.

Litla fjölskyldan kom hingað til lands 20. mars en þá hafði beiðni þeirra um hæli í Þýskalandi verið hafnað. Nasr er 26 ára gamall, Sobo verður 24 ára í næsta mánuði og sonur þeirra Leo fæddist í maí í fyrra.

Þau líta á sig sem Kúrda en Nasr er með írakst ríkisfang og Sobo með íranskt. Faðir Sobo er háttsettur íslamskur klerkur og var fjölskylda hennar algjörlega á móti því að hún giftist Nasr. „Ég þótti ekki sannur múslimi en ég fékk mér til að mynda stundum bjór,“ segir Nasr til útskýringar en öll neysla áfengis er stranglega bönnuð í múslimatrú.

Kúrdar eru þjóðarbrot sem býr í fjallahéruðum Tyrklands, Íraks og Írans og í minna mæli í Sýrlandi og Armeníu. Þeir eru um 30-35 milljónir og eru þar með stærsta ríkislausa þjóðarbrot heims. Í síðasta mánuði fór fram þjóðaratkvæðagreiðsla um sjálfstæði sjálfstjórnarhéraðs Kúrda. Íbúar hérðasins vilja sjálfstæði en það vilja stjórnvöld í Írak ekki.

Kúrdar í Írak veifa fána og fagna í tengslum við …
Kúrdar í Írak veifa fána og fagna í tengslum við þjóðaratkvæðagreiðslu í lok september. AFP

Fá annaðhvort vernd eða deyja

Þrátt fyrir óánægða fjölskyldu gengu Nasr og Sobo í það heilaga. Þau óttuðust samt reiða ættingja Sobo og flúðu til heimaborgar Nasr í Írak. Þar reyndu hryðjuverkasamtök að fá Nasr til að ganga til liðs við sig og á sama tíma heyrðu þau af því að reiðir fjölskyldumeðlimir Sobo hefðu elt þau frá Íran og hótað þeim lífláti. Þannig hófst flótti þeirra til Evrópu.

„Ef ég hefði getað lifað eins og manneskja í heimalandi mínu hefði ég ekki farið til Evrópu. Ef ég hefði fengið vernd í Þýskalandi hefði ég ekki komið til Íslands. Núna erum við á Íslandi, eigum enga peninga og getum ekkert farið. Annaðhvort fáum við vernd eða deyjum,“ segir Nasr. Samkvæmt upplýsingum sem þau fengu frá yfirvöldum verða þau send úr landi á næstu tveimur vikum. Fyrst þarf Sobo að gangast undir læknisskoðun og skoðun sálfræðings en hún er ólétt og þjáist af miklum kvíða.

Nasr þótti niðurstaða yfirvalda í Þýskalandi ekki sanngjörn en einhver ástæða synjunar þar kann að vera vegna þess að Sobo þóttist vera frá Írak til að geta verið með eiginmanni sínum við komuna til Evrópu.

Ber Þjóðverum ekki vel söguna

„Barnið okkar fæddist í Þýskalandi en við fengum 30 daga til að yfirgefa landið eftir að hafa verið synjað um dvalarleyfi,“ segir Nasr og er mikið niðri fyrir. „Það er ekki hægt að tala við þá eða útskýra hluti fyrir þeim, öllum er sama um aðra.“

Nasr skilur ekki af hverju þýsk yfirvöld skoðuðu ekki lögregluskýrslur frá Írak. Þar kom hann til skýrslutöku vegna þess að hann átti að vinna með hryðjuverkamönnum. Hópur í heimabæ Nasr vildi fá hann til að þjálfa unga krakka í kung fu, sem nota átti í hernaði, en hann er þrautreyndur þjálfari í bardagaíþróttinni.

Fjölskyldunnar bíður dauðarefsing ef þau verða send aftur til Írans en þangað verða þau send vegna þess að þeim hefur verið hafnað í Þýskalandi. „Ég grátbað yfirvöld um að fá að dvelja hérna. Okkur hafa borist hótanir í gegnum Facebook eftir að við vorum skírð til kristni. Mér hefur verið hótað því að ég verði drepinn,“ segir Nasr en hann og Sobo voru skírð til kristni í sumar.

Frá götum Teheran, höfuðborgar Íran. Þangað vilja Nasr og Sobo …
Frá götum Teheran, höfuðborgar Íran. Þangað vilja Nasr og Sobo alls ekki verða send. AFP

Þau lýsa því að Kúrdar eigi undir högg að sækja, bæði í Íran og Írak. Þar fyrir utan sé klerkasamfélagið í Íran gríðarlega strangt; annaðhvort fylgirðu reglunum eða hlýtur grimmilega refsingu. Nasr tekur dæmi um að hér á landi fari fólk í kirkju ef þegar því sýnist. „Ef fólk sleppir því að sækja mosku í Íran er það lamið.“

Leo er talinn tilheyra Evrópu

Nasr hefur miklar áhyggjur af eiginkonu sinni. Hún situr þögul nánast allan tímann á meðan heimsókn blaðamanns stendur en augu hennar eru full af tárum. Á meðan leikur sonur þeirra, hinn eins og hálfs árs gamli Leo, á als oddi og gerir sitt besta til að breyta upptökutæki blaðamanns í snuð.

„Hún hefur miklar áhyggjur af ástandinu. Sobo grætur mikið og hefur sokkið niður í djúpt þunglyndi og kvíða,“ segir Nasr og bætir við að Sobo hafi varla farið út úr húsi síðustu daga.

Leo fæddist eins og áður sagði í Þýskalandi en er samt í raun ríkisfangslaus, enda hefur hann verið á flótta allt sitt líf. Foreldrar hans segja að samkvæmt siðum í Íran sé barnið talið tilheyra Evrópu af því að þar er fæðingarland þess.

„Ef við förum aftur til Íran teljum við líklegt að hann verði grýttur til dauða. Þau munu segja að hann sé trúlaus eða kristinn og eigi enga framtíð í Íran, eins og foreldrar hans,“ segir Nasr og bætir við að það sé vitað mál að þetta séu hinar ströngu reglur í Íran.

Vilja bara eðlilegt fjölskyldulíf

„Hér viljum við vera en við vitum að Ísland er lítið land, ólíkt Þýskalandi. Íslendingar eru ekki rasistar og ég hef áhyggjur af fjölskyldunni minni. Ég vil bara lifa eðlilegu fjölskyldulífi og mér finnst samfélagið gott hérna,“ segir Nasr og grefur andlitið í höndum sér.

„Núna grátbiðjum við fólk um að fá að vera áfram, alla sem geta hjálpað,“ bætir hann við.

Sobo hefur að mestu setið þögul á meðan eiginmaður hennar hefur rætt um stöðu fjölskyldunnar. Hún vill lítið segja þegar blaðamaður beinir orðum að henni. „Ég vil bara grátbiðja yfirvöld um að bjarga mér. Takk.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert