Meðallífeyrisþeginn á 40 milljónir í hreina eign

mbl.is/Hanna Andrésdóttir

Hrein eign einstaklinga yfir 67 ára aldri, þ.e. eignir að frádregnum skuldum, var rúmlega 40 milljónir króna að meðaltali árið 2016. Þessar tölur má finna á heimasíðu Hagstofu Íslands en í kjölfar ummæla Brynjars Níelssonar hafði blaðamaður mbl.is samband við Hagstofuna til þess að fá upplýsingar um hreina eign ellilífeyrisþega. 

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálf­stæðis­flokks­ins, komst í fréttir í fyrradag eftir að hafa látið þau orð falla að 50 millj­ón­ir króna væru ekki mikl­ir pen­ing­ar og að slík­ar upp­hæðir væru „ekk­ert langt frá venju­legu fólki“. 

„Þess­ar töl­ur eru ekk­ert fjarri venju­legu fólki [...] Ann­ar hver líf­eyr­isþegi á kannski 50 millj­ón­ir sem menn eru að fjár­festa með. Menn eru að fjár­festa með líf­eyr­inn sinn – sem er miklu meiri en 50 millj­ón­ir hjá venju­legu fólki [...],“ sagði Brynjar en Stund­in hafði greint frá því að Bjarni Benediktsson hefði losnað und­an ábyrgð á 50 millj­óna króna kúlu­láni.

5,7 milljónir í verðbréfaeign

Samkvæmt gögnum Hagstofunnar voru eignir þessa hóps 45,7 milljónir að meðaltali en skuldir um 5,3 milljónir. Meðaltal getur hins vegar gefið skakka mynd ef fáir eignamiklir einstaklingar hafa áhrif á það og þá er betra að skoða miðgildi. 

Miðgildi eigna hópsins var 34,4 milljónir en miðgildi skulda 0,4 milljónir. Hrein eign ellilífeyrisþega, reiknuð út frá miðgildi, var því 34 milljónir króna. Á miðgildi og meðaltali munar 6 milljónum sem gefur til kynna að dreifing gagnanna teygist lengra í annan endann, þe.a.s. að nokkrir eignamiklir einstaklingar skekki myndina. 

Undir eignir falla innlendar og erlendar fasteignir, peningalegar eignir, svo sem innlán og verðbréf, ökutæki og aðrar eignir eins og skyldusparnaður. 

Meðalellilífeyrisþeginn á að meðaltali 30 milljóna króna fasteign, ökutæki að virði 1,6 milljóna króna, innlán upp á 7,8 milljónir og verðbréf að virði 5,7 milljóna króna. Aðrar eignir nema 668 þúsundum króna. Eignir ellilífeyrisþega mynda um 40% af heildareignum landsmanna. 

Þór­unn Svein­björns­dótt­ir, formaður Lands­sam­bands eldri borg­ara, hafnaði ummælum Brynjars. Hún sagði að auðvitað væri til fólk sem ætti þessa upp­hæð í ein­hverj­um bréf­um eða í pen­ing­um en fyrst og fremst væru eign­ir mjög stórs hóps bundn­ar í fast­eign­um. Ekki væri hægt að losa þær nema að minnka við sig og í dag minnkaði fólk ekki við sig nema það kostaði meira.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert