Íslenskir dómstólar hafa stundum vanrækt að taka afstöðu til þess hvort þau málefni sem fjölmiðlar fjalla um eiga erindi við almenning eða ekki. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í nýrri skýrslu Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands um dóma Mannréttindadómstóls Evrópu um tjáningarfrelsi.
Stofnuninni var af beiðni stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis falið að rannsaka dóma sem gengið hafa hjá Mannréttindadómstól Evrópu á árunum 2012-2017, í málum gegn íslenska ríkinu. Skýrslan var unnin af Gunnari Páli Baldvinssyni.
Sex áfellisdómar yfir ríkinu
Mannréttindadómstóllinn hefur ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi brotið gegn tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks, eða í sex skipti á umræddu tímabili. Málin sem skoðuð eru í skýrslunni eru mál Bjarkar Eiðsdóttur (Goldfinger), þrjú mál Erlu Hlynsdóttur (Átök á Strawberries, Byrgið og fíkniefnainnflutningur), mál Steingríms Sævars Ólafssonar (Frambjóðandi til stjórnlagaþings) og mál Reynis Traustasonar (Kæra til lögreglu). Í öllum þessum málum varð niðurstaðan áfellisdómur yfir íslenska ríkinu.
Í tveimur málum, sem einnig voru skoðuð, máli Ólafs Arnarssonar (LÍÚ og AMX) og Svavars Halldórssonar (Fons og Panama) var íslenska ríkið sýknað af Mannréttindadómstólnum.
Blaðamenn dæmdir til að greiða miskabætur
Öll ofangreind mál voru til komin vegna meiðyrðamála sem höfðuð voru fyrir íslenskum dómstólum gegn frétta- eða blaðamönnum, ritstjórum eða greinarhöfundum. Þau voru höfðuð vegna tiltekinna ummæla um nafngreinda einstaklinga sem birtust í íslenskum fjölmiðlum.
„Í umræddum málum féllust íslenskir dómstólar á að málshöfðun lyti a.m.k. að hluta til að tilteknum ummælum þar sem þeir einstaklingar, sem fjölmiðlar hefðu fjallað um, hefðu verið sakaðir um refsivert athæfi, væru til rannsóknar vegna slíkrar háttsemi eða tengdust glæpastarfsemi,“ segir í skýrslunni. Ekki haft þótt liggja fyrir nægjanlega traustar sannanir fyrir ummælunum og þau hafi því varðað 235. grein almennra hegningarlaga, sem fjallar um aðdróttanir.
„Í öllum tilvikum var fjölmiðlafólki gert að greiða stefnendum miskabætur og málskostnað auk þess sem hin umdeildu ummæli voru dæmd dauð og ómerk. Það fjölmiðlafólk sem laut í lægra haldi í þessum málum kærði niðurstöðurnar til Mannréttindadómstóls Evrópu.
Vanræksla íslenskra dómstóla
Í skýrslunni, þar sem rýnt er í dóma Mannréttindadómstólsins, er komist að þeirri niðurstöðu að íslenskir dómstólar hafi stundum vanrækt að fjalla um hvort umfjöllunarefni fjölmiðla átti erindi við almenning. Þá kemur fram að ekki hafi alltaf verið tekin afstaða til stöðu og fyrri hegðunar þess einstaklings sem fjallað er um og í sumum málum hafi íslenskir dómstólar vanrækt að líta til þess að fjölmiðlafólk hafi unnið störf sín í góðri trú og gætt jafnvægis í umfjöllun sinni.
Fram kemur að í umræddum málum hafi Mannréttindadómstóllinn sjálfur oft lagt mat á umrædd sjónarmið og að þau leiddu til þess að „ekki hefði verið nauðsynlegt í lýðræðislegu þjóðfélagi að takmarka tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks.“
Einnig er í skýrslunni bent á að samkvæmt dómum Mannréttindadómstólsins hafi í nokkur skipti verið brotið gegn tjáningarfrelsi fjölmiðlafólks með því að gera það ábyrgt fyrir ummælum sem höfð voru eftir nafngreindum viðmælendum. Dómstólinn hafi áréttað að sérstakar ástæður þyrftu að koma til svo blaðamenn yrðu látnir bera ábyrgð í slíkum tilvikum. Þær hafi ekki verið fyrir hendi.
Bent er á að lög sem sett voru 2011 kveða á um að ummæli sem höfð séu eftir nafngreindum einstaklingi, hafi hann samþykkt birtingu þeirra, séu á ábyrgð þess einstaklings. Löggjafinn hafi því þegar brugðist við þeirri dómaframkvæmd íslenskra dómstóla sem Mannréttindadómstóllinn átti eftir að finna að síðar.
Þá kemur fram að Mannréttindadómstóllinn hafi í dómum sínum fundið að því hvaða skilning íslenskir dómstólar lögðu í ýmis þeirra ummæla sem málin lutu að. Dómstóllinn hafi virst ósammála mati íslenskra dómstóla á efnislegu inntaki sumra ummælanna. Þau hafi af Mannréttindadómstólnum ekki verið talin jafn meiðandi og að mati íslensku dómstólanna.
Í skýrslunni koma fram leiðbeiningar sem íslenskir dómstólar megi hafa til hliðsjónar þegar meta þarf hvort nauðsynlegt er að takmarka tjáningarfrelsi. Þar segir meðal annars að ekki ætti að „gera þá kröfu til þeirra sem tjá sig á opinberum vettvangi að þeir gæti fyllstu nákvæmni um hugtök sem kunni að hafa sértæka merkingu á fagsviðum. Sérstaklega verður ekki gerð sú krafa til almennings eða blaðamanna að notuð séu nákvæmlega rétt lögfræðileg hugtök þótt sakamál séu til umfjöllunar.“
Þessu má finna stað í máli Reynis Traustasonar þar sem það var talin aðdróttun að staðhæfa í DV að tiltekinn lektor í viðskiptafræði væri til rannsóknar hjá lögreglu. Dómstóllinn taldi að ekki hefði verið þörf á því að gera greinarmun á því hvort umræddur lektor hefði verið til rannsóknar eða til skoðunar hjá lögreglu.
Í skýrslunni er bent á að íslenskir dómstólar hafi á síðustu árum að einhverju marki tekið mið af áfellisdómum Mannréttindadómstólsins yfir ríkinu.