„Við getum gert allt betur“

Pallborðsumræður á Slysavarnarþingi. (f.v.) Sigurjón Andrésson forstöðumaður markaðsmála og forvarna …
Pallborðsumræður á Slysavarnarþingi. (f.v.) Sigurjón Andrésson forstöðumaður markaðsmála og forvarna hjá Sjóvá, Svanfríður Anna Lárusdóttir stjórnarkona Slysavarnafélaginu Landsbjörg, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Brynjólfur Mogensen prófessor og yfirlæknir, Kjartan Þorkelsson lögreglustjóri á Suðurlandi og Gunnar Geir Gunnarsson hjá Samgöngustofu. Ljósmynd/Landsbjörg

Þrátt fyrir mikinn metnað og góðan vilja hefur lítið verið gert til að uppfæra Slysaskráningu Íslands á þeim tæplega 20 árum síðan kerfinu var komið upp. Skráningar eru enn að mestu leyti handvirkar og erfitt getur verið að sækja gögn í kerfið sem gerir það að verkum að erfitt er að einbeita kröftum og fjármagni í tengslum við slysavarnir þangað sem þörfin er mögulega mest. Þetta var meðal þess sem kom fram á slysavarnarþingi á Grand hótel í dag sem Slysavarnarfélagið Landsbjörg stendur fyrir.

Margir duglegir að skrá, en erfitt að sækja gögnin

Brynjólfur Mogensen prófessor og yfirlæknir á Landspítalanum, var meðal þeirra sem tók þátt í pallborðsumræðum á þinginu og sagði hann að spurður hvað betur mætti fara hér á landi þegar kæmi að slysaskráningu: „Við getum gert allt betur.“ Sagði hann slysaskráningargrunninn ágætan, en því miður hefði hann lítið sem ekkert verið uppfærður og litlum tíma og peningum verið varið í að bæta hann. Sagði Brynjólfur að stjórnmálamenn væru vanir að tala um forvarnir á tyllidögum, en ekkert þar á milli og kallaði hann, ásamt öðrum í pallborðinu eftir því að settir væru auknir fjármunir í bætur á kerfinu.

Í samtali við mbl.is segir Brynjólfur að í dag sé allt of mikil handavinna í kerfinu. Ýmsar heilbrigðisstofnanir, lögreglan og aðrar stofnanir séu dugleg að skrá gögn inn í sín kerfi, en kerfin tali svo oft á tíðum illa eða ekki við kerfi Slysaskráningar Íslands. Það geri að verkum að ómögulegt sé að halda utan um einhverjar rauntímaupplýsingar um slys hér á landi nema í sérhæfðum greinum eins og umferðaslysum þar sem sérstakar stofnanir haldi utan um þau gögn.

Holland miklu framar Íslandi 

Þessu er nokkuð öðruvísi farið í Hollandi, en Susanne Nijman, sem er yfirmaður hjá neytenda og öryggisstofnun Hollands, hélt erindi í morgun á ráðstefnunni þar sem hún fór yfir hvernig málum væri háttað þar í landi. Síðustu 20 ár hefur markvisst verið safnað gögnum í einn miðlægan grunn og er stofnunin langt komin með að gera alla skráningu rafræna, til dæmis með að lesa rafrænt af handskrifuðum blöðum og skila inn niðurstöðum í stikkorðum sem gagnast við tölfræðiskráningu.

Niðurstöður úr rannsóknum sem unnar væru upp úr þessum gögnum væru svo meðal annars notaðar til að ákveða hvar ætti að leggja áherslu á slysavarnir og í hvaða flokkum slíkt sé jafnvel óþarft.

Susanne Nijman, yfirmaður hjá neytenda og öryggisstofnun Hollands.
Susanne Nijman, yfirmaður hjá neytenda og öryggisstofnun Hollands. Ljósmynd/Landsbjörg

Landspítalinn vinnur nú að því að gera alla skráningu rafræna og segir Brynjólfur að sú vinna sé langt komin. Áætlar hann að kerfið verði komið í gagnið strax næsta vor og þá muni sjúkrahúsið getað skoðað slysatölur í rauntíma.

Kostnaður við slys á bilinu 75-100 milljarðar árlega

Kostnaður við slys hleypur árlega á milljörðum að sögn Brynjólfs, en Landspítalinn gerði kostnaðargreiningu ásamt Hagfræðistofnun Háskóla Íslands á umferðarslysum fyrir nokkru. Voru þær tölur yfirfarnar hjá Háskólanum í Reykjavík sem taldi kostnaðinn helst til vantalinn.

Vitað er hvað umferðarslys eru stór hluti af heildarslysafjölda hér á landi og þannig var hægt að uppreikna kostnaðinn úr umferðarslysunum á öll slys. Þrátt fyrir að einhver skekkja sé vitanlega í slíkum útreikningum segir Brynjólfur að niðurstaðan sé að heildarkostnaður samfélagsins vegna slysa, ofbeldis og sjálfskaða hlaupi á 75 til 100 milljörðum árlega.

50 milljónir væri góð byrjun

Fram kom í pallborðsumræðunum að líklega myndi kosta einhverja tugi milljóna að uppfæra slysaskráningarkerfið þannig að það myndi gagnast eins og upp var lagt með fyrir 20 árum. „Þó að það þurfi að setja 50 milljónir í byrjun og viðhalda því með nokkrum milljónum á ári er það aðeins lítill hluti sem áverkar kosta á hverju ári,“ segir Brynjólfur við mbl.is. Bendir hann á að ef hægt væri að nota niðurstöður slíkrar gagnasöfnunar til að draga úr slysum, ofbeldismálum eða sjálfskaða þó ekki væri um nema 1-10% væri samfélagslegur kostnaður samt talinn í milljörðum ár hvert.

Ráðstefnugestir á þingi um slysavarnir og öryggi ferðamanna á Grand …
Ráðstefnugestir á þingi um slysavarnir og öryggi ferðamanna á Grand hótel í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki hægt að greina á milli hjólaslyss eða eitrunar

Sem dæmi um skort á greinanlegum upplýsignum sem hægt væri að nota til að bæta slysavarnir benti Svanfríður Anna Lárusdóttir, stjórnarkona í Slysavarnarfélaginu Landsbjörg, á að 900 drengir á aldrinum 0-6 ára meiddust á ári hverju í slysum sem flokkuðust sem frístundaslys. Sagði hún að ekki væri hægt að sjá hvort þeir hefðu drukkið eiturefni úr þrifaskápum eða dottið á hausinn á hjóli.

Aðrir sem sátu í pallborði tóku undir að nauðsynlegt væri að setja aukna fjármuni í uppfærslu á grunninum, en þau voru Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Gunnar Geir Gunnarsson hjá Samgöngustofu og Sigurjón Andrésson, forstöðumaður markaðsmála og forvarna hjá Sjóvá.

Ekkert mark tekið á tölum frá Íslandi

Svanfríður benti í umræðunum á að Ísland væri talsvert á eftir í skráningarmálum slysa og á nýlegri heimsslysavarnarráðstefnu í Finnlandi hafi meðal annars komið fram að ekki væri hægt að styðjast við tölur frá Íslandi í almennilegum rannsóknum þegar kæmi að slysum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert