Gefur nákvæma mynd af samskiptum við Glitni

Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, átti samskipti við lykilmenn hjá Glitni til jafns í gegnum netfang sitt hjá Alþingi og netfang sem hann hafði á vegum BNT hf., þar sem hann var stjórnarformaður á árunum fyrir hrun. Frá þessu er er greint á vef RÚV og eru samskiptin sögð spanna tímabilið frá 2003, þegar Bjarni var kjörinn á þing, fram yfir hrun árið 2008.

Hefur RÚV eftir Bjarna í svörum hans vegna málsins að samskiptin hafi verið eðlileg, en að best sé að hafa skýr skil á milli viðskiptaþátttöku og stjórnmála.

Samkvæmt skýrslu sem KPMG vann fyrir slitastjórn Glitnis í lok árs 2008 skilgreindi FME þá sem komu að undirbúningi þjóðnýtingarinnar sem innherja, m.a. þingmenn, embættismenn og ýmsa ráðgjafa. Er nafn Bjarna á listanum, en í gögnum sem RÚV hefur undir höndum, er ekki að sjá að slitastjórn Glitnis hafi talið Bjarna hafa framið lögbrot með viðskiptum sínum.

Segir RÚV gögnin gefa nákvæma mynd af samskiptum Bjarna, viðskiptafélaga hans, og annarra þingmanna Sjálfstæðisflokksins við starfsmenn og stjórnendur Glitnis og þykja gefa til kynna að  þingmenn hafi verið í nánum samskiptum við þessa aðila.

Þá virðist það hafa skipt Glitni máli að Bjarni var alþingismaður á sama tíma og hann átti í viðskiptum. Þetta birtist meðal annars í tölvupóstsamskiptum starfsmanns Glitnis við Barclays bankann í Bretlandi vegna viðskipta BNT hf. þar í landi árið 2006. Þar tilgreinir starfsmaður Glitnis í London sérstaklega að Bjarni sé þingmaður þegar hann gefur upplýsingar um stjórnendur BNT.

Kveðst Bjarni ekki viss um að hann hafi fulla yfirsýn yfir gögnin sem verið sé að vitna í, þar sem þau séu orðin 10 ára gömul. „En samskipti við stjórnendur Glitnis á þessum tíma tengjast fyrst og fremst því að ég var þátttakandi í viðskiptalífinu og ég var stjórnarformaður og stjórnarmaður í öðrum fyrirtækjum sem voru stórir viðskiptamenn félagsins, þannig að þau eru eðlileg í öllu þessu samhengi,“ segir hann.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert