Vinstri grænir lækka flugið

Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn, Viðreisn og Sjálfstæðisflokkurinn hafa bætt stöðu sína frá síðustu viku samkvæmt nýrri könnun á fylgi framboða sem Félagsvísindastofnun Háskólans gerði fyrir Morgunblaðið dagana 16. til 19. október. Flokkur fólksins tapar fylgi og fær engan mann kjörinn. Sama er að segja um Bjarta framtíð. Fylgi VG minnkar og einnig dregst fylgi Pírata saman.

Sjálfstæðisflokkurinn eflist

Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkurinn samkvæmt könnuninni með 25,1% fylgi. Fengi hann 17 þingmenn kjörna , en hefur nú 21. Í könnuninni fyrir viku var fylgi hans 22,6%. Vinstri hreyfingin – grænt framboð er næst stærst með 23,2% fylgi og 16 þingmenn, en hefur nú 10 þingmenn. Í síðustu könnun mældist fylgið 27,4%. Fylgistapið er því umtalsvert.

Samfylkingin er þriðji stærsti flokkurinn og hefur fylgi hennar lítið breyst frá síðustu viku þegar hún var á mikilli siglingu. Hún nýtur nú stuðnings 15,6% kjósenda og fengi 11 þingmenn, en hefur aðeins 3 núna. Miðflokkurinn mælist með 9,8% fylgi og fengi 6 þingmenn kjörna. Það er mun betri árangur en í síðustu könnun þegar fylgið var 6,4%. Framsóknarflokkurinn mælist með 7,1% og fengi 5 þingmenn kjörna í stað 8 sem kosnir voru í fyrra. Í síðustu könnun var fylgi flokksins 5,9%. Píratar njóta fylgis 8,2% kjósenda og fengju 6 þingmenn, en hafa núna 10. Viðreisn er með 5,7% fylgi og fengi 3 menn kjörna, en hefur 7 núna. Flokkurinn mældist með 3,4% í síðustu könnun og hefur því sótt í sig veðrið.

Flokkur fólksins úti

Flokkur fólksins mælist með 3,3% fylgi og Björt framtíð með 1,5%. Hvorugur flokkanna fengi samkvæmt því mann kjörinn á þing. Önnur framboð sem nefnd voru í könnuninni voru Dögun, sem nýtur 0,2% fylgis, og Alþýðufylkingin, sem nýtur 0,1% fylgis. Þá nefndu 0,2% þátttakenda að þeir vildu kjósa „annan flokk eða lista“.

Heildarfjöldi í úrtakinu var mun stærri en í síðustu könnunum Félagsvísindastofnunar, 3.900 manns. Fjöldi þeirra sem afstöðu tóku til framboða var 1.940 eftir vigtun, en þar fyrir utan ætlaði 71 að skila auðu, 10 ekki að kjósa, 309 svöruðu „veit ekki“ og 57 vildu ekki svara; samtals 2.396.

Fylgistap Vinstri grænna er umtalsvert frá því í síðustu könnun.
Fylgistap Vinstri grænna er umtalsvert frá því í síðustu könnun. mbl.is/Kristinn Magnússon

Breytt aðferðafræði

Að þessu sinni spurði Félagsvísindastofnun þátttakendur í könnuninni tveggja sömu spurninga og áður: „Ef gengið yrði til kosninga í dag, hvaða flokk eða lista myndir þú kjósa?“ og „En hvaða flokk eða lista finnst þér líklegast að þú munir kjósa?“ Þriðja spurningin, sem notuð var í fyrri könnunum, „Hvort heldurðu að sé líklegra, að þú kjósir Sjálfstæðisflokkinn eða einhvern annan flokk eða lista?“, var ekki notuð að þessu sinni. „Að jafnaði mun þetta hafa þær afleiðingar að fylgi Sjálfstæðisflokksins mælist um 2% hærra en það hefur gert í könnunum Félagsvísindastofnunar hingað til, þó sá munur sé breytilegur milli kannana. Fylgi annarra flokka mun minnka á móti og mun mest draga úr fylgi þeirra flokka annarra en Sjálfstæðisflokksins sem mælst hafa stærstir hverju sinni,“ segir í skýringum sérfræðinga Félagsvísindastofnunar.

Einn möguleiki á stjórn tveggja

Ef niðurstöður könnunarinnar gengju eftir í kosningunum í lok mánaðarins yrði eini möguleikinn á tveggja flokka ríkisstjórn samstjórn Sjálfstæðisflokksins og Vinstri grænna með 33 þingmenn. VG og Samfylkingin gætu myndað þriggja flokka stjórn með annað hvort Framsóknarflokknum eða Pírötum og myndu slíkar stjórnir styðjast við 32 þingsæta meirihluta. Ef Miðflokkurinn kæmi í þeirra stað hefði slík stjórn 34 þingmenn. Samkvæmt þessu eru líkur á því að erfiðlega muni ganga að mynda nýja ríkisstjórn eftir kosningarnar.

Konur hrifnastar af VG

Sem fyrr er nokkur munur á fylgi flokkanna eftir kynjum. VG nýtur þannig fylgis 31% kvenna en 16% karla. Fylgi Framsóknarflokksins, Pírata og Miðflokksins er meira meðal karla en kvenna. Lítill kynjamunur er á fylgi Sjálfstæðisflokksins og Samfylkingarinnar.

Þegar horft er til aldurs nýtur VG mest fylgis meðal yngsta kjósendahópsins á aldrinum 18 til 29 ára, hefur þar 23% fylgi, og er einnig sterkasti flokkurinn meðal kjósenda á aldrinum 30 til 44 ára, þar sem fylgi flokksins er 29%, Sjálfstæðisflokkurinn hefur mest fylgi meðal kjósenda sem eru 45 ára og eldri.

Munur eftir búsetu

Fylgi flokkanna er sem fyrr nokkuð misjafnt eftir búsetu. Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn hafa mun meira fylgi á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu, en þessu er öfugt farið með Pírata. Fylgi annarra flokka skiptist nokkuð jafnt milli höfuðborgar og landsbyggðar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka