Séu einhverjar breytingar gerðar á bifhjóli í flokki I þannig að afl þess og hámarkshraði fari upp fyrir 25 km/klst, þá færist það í raun upp í þann flokk bifhjóla sem afl þess og mögulegur hámarkshraði tilheyrir og þá þarf m.a. ökuréttindi og viðeigandi tryggingar. Þetta er auðvitað háð því að tækið standist allar aðrar kröfur og viðurkenningar þess að færast upp í annan flokk. Þetta segir Einar M. Magnússon hjá Samgöngustofu.
Bifhjólum í flokki I, þ.e. hjólum sem ekki komast hraðar en 25 km/klst hefur fjölgað mikið á undanförnum árum. Hjólin eru einu bifhjólin sem ekki er krafist réttinda til að aka og sem leyfilegt er að aka á göngustígum og gangstéttum. Líkt og með öll önnur bifhjól er þess þó krafist að bifhjólahjálmur og viðeigandi hlífðarfatnaður sé notaður.
Mikil umferð bifhjóla hefur verið á göngustígum í sumar og haust og hafa margir gangandi vegfarendur haft orð á að aksturslag hjólanna skapi oft hættu, auk þess sem hraði sumra fari örugglega vel yfir 25 km/klst.
Í dagbók lögreglu nú í vikunni var m.a. nefnt að ungur ökumaður hefði ekið vespu sinni á gangandi vegfarandi í Arnarhrauni. Meiðsli voru þó talin minni háttar og ekki kom fram hvort ökulag hefði verið háskalegt.
„Flestir eru að gera þetta vel og eru til fyrirmyndar,“ segir Einar Magnús. „Það er hins vegar synd og hættulegt þegar fólk fer um með tillitsleysi gagnvart gangandi vegfarendum sem eiga forgang á gangstígana og gangvegi eins og kemur skýrt fram í umferðalögum.“
Einar segir líka skýrt lögbrot að aka hjólum sem ná hærri hámarkshraða en 25 km/klst á gangstígum. Ökumenn þeirra hjóla verði sömuleiðis að vera með að minnsta kosti bifhjólapróf fyrir létt bifhjól, oft kallað skellinöðrupróf, og sú krafa gildir einnig um hjól sem breytingar hafi verið gerðar á til að auka afl þeirra.
Séu slíkar breytingum til að mynda gerðar á hjóli í flokki I er það í raun orðið skráningaskylt og tilheyrir flokki II. Það ber að hafa í huga að þessi hjól, hvort sem þau tilheyra flokki I eða II geta verið með ýmisskonar aflgjöfum knúnum rafmagni eða jarðefnaeldsneyti.
„Létt bifhjól í flokki II eru skellinöðrur sem komast ekki hraðar en 45 km/klst,“ segir Einar. „Til þess að aka þeim þarf ákveðin réttindi og að standast próf.“ Slíkt próf má ökumaður taka er hann nær 15 ára aldri, auk þess sem þeir sem þegar hafa bílpróf hafa einnig rétt til að aka hjólum í þessum flokki.
„Um bifhjól í flokki II gilda líka aðrar reglur og krafa er gerð til að mynda um ábyrgðatryggingu og annað sem ekki á við í flokki I. Ennþá frekari kröfur er svo gerðar til þeirra bifhjóla sem komast hraðar en 45 km/klst og falla þau í flokk stórra mótorhjóla,“ útskýrir hann.