Vestmannaeyjabær mun taka við rekstri Herjólfs þegar ný ferja verður tekin í gagnið næsta sumar. Samningur þess efnis er á lokametrunum að sögn Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra.
Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2. Óöryggi í samgöngum hefur plagað íbúa í Vestmannaeyjum lengi en bærinn hefur gagnrýnt reksturinn, sem hefur verið í höndum Eimskipa. Búist er við frekari töfum á siglingum Herjólfs í vetur.
Frétt mbl.is: Ríkið efli flugsamgöngur til Eyja
Til stóð að Herjólfur færi í viðgerð í nóvember. Um helgina kom hins vegar í ljós að varahlutirnir sem nota átti í skipið standast ekki kröfur flokkunarfélags Herjólfs, DNV-Gl í Noregi, og því þarf að endursmíða varahlutina frá grunni.
Samkvæmt frétt Stöðvar 2 mun Eimskip láta af rekstri Herjólfs en Jón sagði í viðtali á Stöð 2 að bærinn yrði þá ábyrgur fyrir rekstri ferjunnar og fengi það framlag frá ríkinu sem fylgt hefði rekstrinum, í gegnum Vegagerðina. „Þetta er í lokafrágangi,“ sagði hann.