„Við höfum áhyggjur af þessari stöðu eins og við höfum margoft áður lýst yfir. Herjólfur er orðinn gamall og eftir því sem skip verða eldri aukast líkur á alvarlegum bilunum, eins og nú hafa komið upp í Herjólfi,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum, í samtali við mbl.is.
Til stóð að Herjólfur færi í viðgerð í nóvember. Um helgina kom hins vegar í ljós að varahlutirnir sem nota átti í skipið standast ekki kröfur flokkunarfélags Herjólfs, DNV-Gl í Noregi, og því þarf að endursmíða varahlutina frá grunni.
Frétt mbl.is: Varahluti Herjólfs stóðust ekki gæðakröfur
Elliði segir að mikilvægt sé að bregðast við þeirri stöðu sem nú er komin upp. „Við vitum hvernig þetta óöryggi er og eitt af því sem við myndum vilja láta skoða er að þennan tíma sem Herjólfur verður þetta ótryggur eins og núna er, þá verði flugsamgöngur efldar enn frekar. Það verði reynt að mæta stöðunni með því að gera flugið að raunhæfum kosti fyrir íbúa í Vestmannaeyjum og að ríkið hafi slíka aðkomu.“
Elliði bendir í því samhengi á að ríkið gæti styrkt flugsamgöngur, líkt og gert hefur verið í Skagafirði. Þar er flug ríkisstyrkt, meðal annars á þeirri forsendu að Siglfirðingar hafa ekki beinar flugsamgöngur og því þurfi að aka þeim til og frá Sauðárkróki.
„Þessi aðgerð sem farið var í gagnvart Skagafirði, mér þykir hún mjög góð og það er gott að sjá að íslenska ríkið ætlar að standa vörð um innanlandsflug og mæta þörfunum í Skagafirði með þessum hætti. Þetta er eitthvað sem við myndum vilja sjá gerast líka í Vestmannaeyjum,“ segir Elliði.
Auknar flugsamgöngur eru þó einungis bráðabirgðalausn, að mati Elliða. „Það er einn af plástrunum sem hægt er að nota. En við þurfum að stóla á þetta eins og þjóðveginn. Við erum útflytjandi af verðmætum, af fiskafurðum, og það þarf að vera hægt að flytja þær á öllum stundum. Ef einhvers staðar virðist horfa í það að það verði alvarlegri raskanir en verið hefur á siglingum í Þorlákshöfn, þá þarf að koma hratt og örugglega öflugt skip til landsins, eins og skipið Bodø.“
Norska ferjan Bodø átti að leysa Herjólf af frá 20. nóvember. Bodø er 80 metra langt skip, tekur 330 farþega og u.þ.b. 72 bíla. Skipið hefur leyfi til siglinga í Þorlákshöfn, á svokölluðu „B“ siglingasvæði. Að mati Elliða er afar mikilvægt að varaskip, líkt og Bodø, verði tiltækt öllum stundum.
„Það þarf að hafa það tryggt að ef upp koma alvarlegri bilanir í Herjólfi, ef í ljós kemur að hann getur jafnvel ekki þjónustað í Þorlákshöfn, þá þarf auðvitað vera tiltækt varaskip á öllum stundum,“ segir Elliði.
Eins og staðan er núna mun Herjólfur sigla í vetur. „Mér skilst það á rekstraraðilanum og Vegagerðinni að Herjólfur geti þjónustað en hann þolir minna álag sem þýðir það að frátafir í Landeyjahöfn verði jafnvel enn meiri og jafnvel frátafir í Þorlákshöfn. Þetta er náttúrulega bara alveg hroðaleg staða,“ segir Elliði.
Viðræður um auknar flugsamgöngur til og frá Vestmannaeyjum eru ekki hafnar en fyrir Elliða liggur enginn vafi á því að ríkið verði að koma til móts við íbúa og fyrirtæki í Vestmannaeyjum.
„Þetta mál er allt hið einfaldasta. Ríkinu ber að tryggja samgöngur í þessu landi og það er alveg sama hvort sá staður heitir Vestmannaeyjar, Þórshöfn eða Kópavogur, það verða að vera traustar samgöngur. Nú er það alfarið á ábyrgð ríkisins að tryggja það að þessi staða sem upp er komin með Herjólf valdi ekki truflunum fyrir hvorki íbúa eða fyrirtæki í Vestmannaeyjum.“