RÚV dró upp „kolranga mynd“

Sigurður Kári Kristjánsson.
Sigurður Kári Kristjánsson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Sigurður Kári Kristjánsson, fyrrverandi alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Ríkissjónvarpið hafi dregið upp kolranga mynd af þeim atburðum sem áttu sér stað eftir hrun í umfjöllun sinni á laugardagskvöld um samskipti Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra við Glitni fyrir og eftir hrun.

Hann segir að ekkert sé fjær sanni en að hann, Bjarni, Ólöf Nordal og Pétur H. Blöndal, sem voru í starfshópi Sjálfstæðisflokksins, hafi verið að ganga erinda Glitnis í samskiptum sínum við starfsmenn Glitnis vegna frumvarpsgerðar sem fjallað var um.

Í Facebook-færslu sinni segir Sigurður Kári að þau hafi unnið að frumvarpi til breytinga á skuldajöfnunarreglum gjaldþrotaskiptalaga. Tilgangurinn hafi ekki síst verið sá að koma í veg fyrir að kröfur lífeyrissjóðanna myndu renna inn í þrotabú gömlu bankanna og enda í höndum erlendra kröfuhafa.

„Við vorum, með öðrum orðum, í harðri hagsmunagæslu fyrir almenning í landinu gegn erlendum kröfuhöfum. Við vorum að reyna að bjarga verðmætum. Við vorum ekki í hagsmunagæslu fyrir Glitni eins og halda mætti og áttum ekki í óeðlilegum samskiptum við starfsmenn þess banka,“ skrifar Sigurður Kári. „Af þeirri baráttu vorum við stolt, ég, Bjarni, Ólöf og Pétur.“

Hann bætir við að með fréttaflutningi sínum hafi RÚV reynt að „baða þátttöku Bjarna Benediktssonar sama spillingarljóma sem þeir fjölmiðlar sem nú sæta lögbanni hafa reynt að gera um langt skeið“.

„Það er dapurlegt að horfa upp á fréttastofu Ríkisútvarpsins vera þátttakanda í slíkri vegferð, viku fyrir alþingiskosningar. Það er ekki hægt að láta hjá líða að gera athugasemdir við framgöngu fréttastofunnar og þess fréttamanns sem í hlut á."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert