„Það er auðvitað gott að hann hafi hringt og beðist afsökunar. Það er algjört fyrsta skref,“ segir Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, í samtali við mbl.is. Hún staðfestir að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafi hringt og beðið hana afsökunar, eins og hann greindi frá í pistli á Facebook nú fyrir skömmu.
Brynjar spurði Steinunni Þóru, á fundi Siðmenntar í gærkvöldi, hvort hann mætti kyssa hana. Þá sagðist hann vera hrifinn af henni. Fundurinn var sýndur í beinni útsendingu á Facebook en Steinunn Þóra sagði í morgun að henni hefði þótt framferði Brynjars óviðeigandi og að hann hefði farið yfir strikið. Á fundinum var verið að ræða pólitík.
Spurð hvernig hún hafi tekið afsökunarbeiðninni segist Steinunn Þóra taka mark á því þegar fólk hringi og biðjist afsökunar: „En ég benti honum á að þarna hefði hann verið að tala inn í þessa kynjuðu orðræðu sem við höfum verið að takast á við í samfélaginu,“ segir hún.
Steinunn Þóra segir að þau geti vonandi bæði lært af þessari uppákomu. „Það sem ég get lært er að svara fyrir mig strax,“ segir hún við mbl.is.