Andlát: Þorbjörn Guðmundsson

Þorbjörn Guðmundsson.
Þorbjörn Guðmundsson. mbl.is/Árni Sæberg

Þorbjörn Guðmundsson, fyrrverandi blaðamaður og fulltrúi ritstjóra á Morgunblaðinu, lést í gær á Landspítalanum við Hringbraut. Hann var á 95. aldursári.

Þorbjörn fæddist 30. desember 1922 í Vallanesi í Vallahreppi, Suður-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Aðalbjörg Stefánsdóttir húsmóðir og Guðmundur Þorbjörnsson múrarameistari.

Þorbjörn lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1942. Hann innritaðist í laganám en hóf störf á Morgunblaðinu sem blaðamaður 1942 þegar síðari heimsstyrjöldin stóð sem hæst. „Svo illilega smitaðist ég af blaðamennskubakteríunni, að ég vann á Morgunblaðinu alla mína starfsævi; fimmtíu ár,“ sagði Þorbjörn í viðtali 2009. Þegar hann leit um farinn veg sagði hann að stofnun lýðveldisins 17. júní 1944 væri sér efst í huga. „Sú tilfinning sem fylgir þeim degi á engan sinn líka.“

Þorbjörn gekk í flest störf á blaðinu og var orðinn fulltrúi ritstjóra Morgunblaðsins þegar hann lét af störfum 1992. Þá gerði Þorbjörn krossgátur og jólamyndagátur fyrir Morgunblaðið áratugum saman.

Þorbjörn var í stjórn Blaðamannafélags Íslands um skeið, þar af formaður í eitt ár. Hann sat í stjórn Lífeyrissjóðs blaðamanna frá 1958-1992 og var í siðanefnd Blaðamannafélagsins. Þorbjörn var handhafi blaðamannaskírteinis númer 1 þegar hann lést. Hann var sæmdur gullmerki Blaðamannafélagsins 1982. Þorbjörn var í stjórn ÍR og varaformaður um tíma. Hann sat í stjórn Austfirðingafélagsins í Reykjavík, þar af formaður í fjögur ár og var lengi í Oddfellow-reglunni.

Eftirlifandi eiginkona Þorbjörns er Sigurrós Sigurðardóttir félagsráðgjafi, fædd 20. desember 1926. Þau eignuðust Kristjönu Rós bókara og Guðmund verkfræðing og MBA, sem bæði lifa föður sinn. Barnabörn Þorbjörns eru fimm og barnabarnabörnin sex talsins.

Við leiðarlok þakkar Morgunblaðið Þorbirni langa samfylgd og vel unnin störf og sendir ástvinum hans innilegar samúðarkveðjur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert