Persónuvernd hefur úrskurðað að framkvæmdastjóri og sóknarprestur Lágafellssóknar hafi gerst brotlegir við persónuverndarlög með því að hafa framsent tölvupósta starfandi prests til biskupsritara, prófasts Kjalarnessprófastsdæmis og skrifstofu- og mannauðsstjóra Biskupsstofu.
Póstarnir vörðuðu störf kvartanda, sem þá var prestur í Lágafellssókn, samstarf og samstarfserfiðleika í sókninni. Þeir voru 12 talsins, árin 2014 og 2015. Þeir voru áframsendir án vitundar starfsmannsins sem kvartaði. Fram kemur í kvörtuninni að einn pósturinn hafi verið sendur á biskup Íslands.
Í kvörtun til Persónuverndar kemur fram að í tölvupóstunum hafi meðal annars verið fjallað um ýmis persónuleg mál, trúnaðarupplýsingar og tillögur að úrbótum á vinnustaðnum, prestverk, samstarf presta og fleira. „Kvartandi telur ljóst að þessi framkvæmd hafi ýtt undir tilfærslu hans í starfi, skapað vandræði fyrir hann og fjölskyldu hans og að vegið hafi verið að mannorði hans með athæfinu, en hann tekur fram að hann hafi ekki verið áminntur eða staðinn að neinum brotum í starfi sínu sem prestur.“
Framkvæmdastjóri Lágafellssóknar hélt því fram að póstarnir hafi verið vinnutengdir og „minnist þess ekki að hafa áframsent sérstök einkabréf frá kvartanda.“ Þeir hafi aldrei varðað viðkvæmar persónuupplýsingar í skilningi laga.
Pesrónuvernd segir í niðurstöðu að skoðun hafi leitt í ljós að póstarnir tengist einkum starfi kvartanda og samrýmist þess vegna 8. grein laga um almennar reglur um heimildir fyrir vinnslu persónuupplýsinga.
Persónuvernd kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að póstarnir hafi verið áframsendir án vitundar prestsins sem kvartaði. Því hafi fulltrúar Lágafellssóknar ekki andmælt. Miðlun póstanna hafi að því leyti ekki uppfyllt skilyrði um sanngirni og vandaða vinnsluhætti.