Brynjar biðst afsökunar

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert

Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefur að sögn beðið Steinunni Þóru Árnadóttur, þingmann Vinstri grænna, afsökunar á að hafa í beinni Facebook-útsendingu á fundi Siðmenntar í gær, spurt hvort hann mætti kyssa hana.

Steinunn Þóra sagði við RÚV í morgun að sér hefði þótt Brynjar fara yfir strikið með framferði sínu. Brynjar sagðist á móti einungis hafa verið að lýsa hrifningu sinni á Steinunni og spurði hvort öll kímnigáfa á landinu væri dauð.

Brynjar segir í stöðuuppfærslu að honum hafi orðið á að lýsa yfir ánægju sinni með málflutning Steinunnar Þóru, með því að spyrja hvort hann mætti kyssa hana. „Með þeim hætti var ég að slá á létta strengi og hélt að öllum væri ljóst að ekkert annað lægi að baki,“ segir Brynjar í færslu á Facebook.

Hann segir að honum hafi mátt vera ljóst, eftir á að hyggja og í ljósi umræðunnar í samfélaginu, að þetta kynni að þykja óviðeigandi. „Þegar ég vissi að Steinunni Þóru hefði fundist þetta óþægilegt hafði ég strax samband við hana og baðst velvirðingar á þessum orðum mínum. Segja má að þessi kerskni hafi verið misheppnuð sem ég biðst velvirðingar á og mun örugglega læra af,“ segir Brynjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert