Fjöldi flækingsfugla barst til landsins í kjölfar suðaustanstorms á fimmtudaginn var. Þeirra á meðal voru tvær tegundir sem aldrei hafa sést hér áður.
Annars vegar bláskotta en tvær slíkar sáust á Höfn í Hornafirði og hlíðasöngvari sem sást í Vík í Lóni, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Tegundir flækingsfugla hvers dags eru taldar upp á síðu Fuglaathugunarstöðvar Suðausturlands (fuglar.is). Á sunnudaginn var voru hér auk bláskottu og hlíðasöngvara t.d. tegundirnar glóbrystingur, hnoðrasöngvari, bókfinka, mistilþröstur, söngþröstur, gransöngvari, fjallafinka, mánaþröstur, seftittlingur, gráþröstur, gráhegri, kjarnbítur, turnfálki, netlusöngvari, gulerla, blábrystingur og dvergtittlingur.