Hætta á „algjörri eyðileggingu“ vistkerfis Svartár á kafla

Hólmasvæði Svartár og þrengslin Glæfra þar upp af. Stífla Svartárvirkjunar …
Hólmasvæði Svartár og þrengslin Glæfra þar upp af. Stífla Svartárvirkjunar yrði neðan túna efst í hægra horni myndarinnar. Ljósmynd/Af Facebook-síðu Verndarfélags Svartár og Suðurár

„Það er okkar mat að þessi virkjunarhugmynd sé algjörlega óásættanleg,“ segir Jón Aðalsteinn Þorgeirsson, formaður Verndarfélags Svartár og Suðurár (VSS) um fyrirhugaða 9,8 megavatta (MW) virkjun í Svartá í Bárðardal. „Það þarf nú ekki að kynna sér þetta mál vel til að sjá að sá fyrirhugaði gjörningur að fórna á með einstöku lífríki fyrir nokkur megavött er einfaldlega út í hött.“

Verndarfélagið er í hópi tuga aðila sem gagnrýnt hafa virkjunarhugmyndina harðlega og sendu inn athugasemdir við frummatsskýrslu hennar til Skipulagsstofnunar. Um 77 athugasemdir hafa borist stofnuninni en sú tala kann að breytast. Í umsögn Landverndar kemur m.a. fram að þar sem Svartá tilheyri vatnasviði Skjálfandafljóts, sem lagt er til að fari verndarflokk rammaáætlunar, sé ljóst að ekki sé unnt að heimila þar virkjun. „Telja má líklegt að innan áratugar verði litið á þessi áform sem jafn fráleit og fólki nú þykja hugmyndir manna á síðari hluta 20. aldar um að veita Skjálfandafljóti, Svartá og Suðurá í Mývatn og fylla Laxárdal af vatni.“

Orka til atvinnustarfsemi og almennings

SSB Orka áformar að virkja neðri hluta Svartár og hefur samið við HS Orku um kaup á raforkunni sem aflað yrði. Markmið framkvæmdanna er að framleiða orku til nota í atvinnustarfsemi og til einkanota almennings. Frumhönnun virkjunarinnar er lokið og búið er að bjóða út vél- og rafbúnað. Frekari hönnun annarra þátta bíður þess að leyfi fyrir framkvæmdunum liggi fyrir en m.a. á enn eftir að afgreiða skipulagsbreytingar. Gangi áform SSB Orku eftir er stefnt að því að hefja framkvæmdir um mitt næsta ár og að þeim verði lokið í lok árs 2019.

Framkvæmdirnar fela í sér byggingu stíflu- og inntaksmannvirkja ofan við Grjótá, um 3 kílómetra langa niðurgrafna aðrennslispípu og stöðvarhús ásamt frárennslisskurði rúmum kílómetra ofan við ármót við Skjálfandafljót. Í frummatsskýrslu framkvæmdarinnar segir að orkan yrði flutt inn á flutningskerfi raforku um jarðstreng. Hann yrði annað hvort lagður um 47 kílómetra leið yfir heiðar að tengivirki Landsnets við Laxá eða um 22 kílómetra leið norður Bárðardalinn að nýju tengivirki við Kálfborgará.

mbl.is/Kristinn Garðarsson

Lífauðug lindá

Bárðardalur er einn af lengstu dölum landsins og liggur samsíða gosbelti Norðurlands. Hann er mótaður af rofi ísaldarjökla og bergmyndanir á svæðinu eru nokkuð fjölbreyttar. Yngsta hraunið er Bárðardalshraun sem er meðal tíu stærstu hrauna landsins og talið um 9.000 ára gamalt. Það telst til nútíma eldhrauna sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum.

Svartá er lindá að stærstum hluta og er vatnsmest þveráa Skjálfandafljóts. Hún er um 16 kílómetra löng og á upptök sín annars vegar í Svartárvatni og hins vegar í Suðurá. Suðurá á aftur upptök sín í lindum í Suðurárbotnum.

Lindár eru sjaldgæfar á bæði lands- og heimsvísu. Að jafnaði eru litlar sveiflur í rennsli þeirra og vatnshita og eru þær einnig steinefnaríkar og lífauðugar. Aðstæður eru þar góðar fyrir botngróður og í Svartá er að finna mikla og samfellda þekju mosa og þörunga. Lindarkerfi sem þessi „gegna lykilhlutverki í tilveru nokkurra dýrastofna, skapa vinjar í annars gróðurlitlu landi, frjósa sjaldan á veturna og búa auk þess yfir óvenjulegri náttúrufegurð í nærumhverfinu vegna samspils hrauns, vatns og gróðurs,“ eins og það er orðað í athugasemdum Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn á frummatsskýrslu virkjunarinnar. Þar er bent á að gjarnan sé talað um Svartá sem litlu systur Laxár þar sem lífríki þeirra séu keimlík.

Veitt á urriðasvæði Laxár við Mývatn. Svartá hefur stundum verið …
Veitt á urriðasvæði Laxár við Mývatn. Svartá hefur stundum verið kölluð litla systir Laxár þar sem lífríki ánna er keimlíkt. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Fyrirhugað virkjunarsvæði er í Þingeyjarsveit. Þar hefur hefðbundinn landbúnaður verið fyrirferðarmestur í atvinnulífinu en nýjar búgreinar svo sem skógrækt og ferðaþjónusta hafa verið að ryðja sér til rúms ásamt ýmis konar heimilisiðnaði. Ferðaþjónusta er nú öflug á svæðinu, segir í frummatsskýrslu framkvæmdarinnar. Virkjunin myndi engin heilsárstörf skapa í sveitarfélaginu.

Segja umhverfisáhrif óveruleg til nokkuð neikvæð

Þar sem Svartárvirkjun er undir 10 MW fór hún ekki sjálfkrafa í umhverfismat. Skipulagsstofnun tók hins vegar ákvörðun um að hún skyldi háð slíku mati og rann athugasemdafrestur vegna frummatsskýrslu hennar, sem Verkís vann fyrir SSB Orku, út í gær. Fjölmargar athugasemdir bárust og hefur hluta þeirra verið deilt á Facebook. 

Skýrsluhöfundar meta áhrif fyrirhugaðrar virkjunar að mestu óveruleg til nokkuð neikvæð. „Að teknu tilliti til mótvægisaðgerða, sem felast annars vegar í tryggingu á lágmarksrennsli og gerð fiskvegar og hins vegar í aðlögun framkvæmda að umhverfinu og góðum frágangi að framkvæmdum loknum, er það niðurstaðan að Svartárvirkjun sé ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér.“

Þessi niðurstaða er harðlega gagnrýnd m.a. af Verndarfélagi Svartár og Suðurár sem bendir í sínum athugasemdum á að bein og óbein áhrif virkjunarinnar á umhverfi og náttúru, sem og sjónræn og samfélagsleg áhrif, yrðu verulega neikvæð og óafturkræf.

„Falssýn“ að mati náttúrufræðings

Náttúrufræðingurinn Ólafur K. Nielsen bendir á að lágmarksrennsli hafi einnig verið lofað vegna Köldukvíslarvirkjunar sem er í eigu sömu aðila og nú hyggjast virkja Svartá. „Þetta er falssýn,“ skrifaði Ólafur í harðorðri grein í þingeyska fréttablaðið Skarpur á dögunum. „Hverjar hafa efndirnar verið við Köldukvísl? Augu mín hafa séð hvernig farvegur Köldukvíslar neðan stíflu hefur ítrekað á umliðnum árum verið vatnslaus og Fossbúinn, bleikjan og straumöndin heyra sögunni til!“

Gagnrýni Verndarfélagsins og fleiri á virkjunarhugmyndina snýr einmitt helst að áhrifum hennar á fugla- og annað dýralíf í og við Svartá. Með virkjun yrði rennsli á um 3 kílómetra kafla mjög skert þar sem vatninu yrði að mestu veitt úr farvegi árinnar og um aðrennslispípu að stöðvarhúsi. Í frummatsskýrslu segir að gert sé ráð fyrir fiskvegi framhjá stíflu og um hann og opnun í gegnum stífluna yrði lágmarksrennsli árinnar tryggt. „Áhrif á vatnalíf með tilliti til mótvægisaðgerða eru metin nokkuð neikvæð, staðbundin en afturkræf.“

Skipulagsstofnun á eftir að gefa út álit sitt á matsskýrslu …
Skipulagsstofnun á eftir að gefa út álit sitt á matsskýrslu Svartárvirkjunar. Hér að ofan má sjá niðurstöðu Verkís á mati á umhverfisáhrifum en slíkt kann að breytast í meðförum Skipulagsstofnunar. Úr frummatsskýrslu Verkís á Svartárvirkjun

Hólmasvæðinu yrði gjörspillt

Í athugasemdum Verndarfélagsins er sértök athygli vakin á einstöku hólmasvæði sem er á þeim kafla árinnar þar sem rennsli mun minnka verulega með virkjun. „Svo virðist að hólmasvæðinu verði gjörspillt með þessum framkvæmdum,“ segir í athugasemdum VSS. „Farvegirnir verða nánast þurrir og í besta falli mun lóna vatn með neðstu hólmunum frá útfalli stöðvarhússins. Það er fjarstæða að halda því fram að þetta boði ekki eyðileggingu búsvæða skordýra og annarra smádýra, fugla og fiska.“

Krefst Verndarfélagið að „framkvæmdaaðili geri grein fyrir afdrifum hólmasvæðis og frárennsli virkjunar í vatnsrennslislíkani sínu þar sem straumhraði og dýpi útrásar kann að skipta meginmáli fyrir vistkerfi og veiðistaði á þessu svæði árinnar.“

Fuglavernd bendir í sínum athugasemdum á að vatnasvið Svartár og Suðurár hafi alþjóðlegt verndargildi vegna fuglalífs. Þar ræður mestu að allt að 6% íslenskra húsanda hafa þar búsetu yfir vor og sumar, einnig að nærri 1% íslenskra straumanda eigi sér þar varplönd. „Til lengri tíma mun þessi framkvæmd mögulega spilla gæðum eins besta fálkaóðals í Þingeyjarsýslum,“ segir ennfremur í athugasemdum Fuglaverndar. Niðurstaða frummatsskýrslunnar er hins vegar sú að í heildina séu áhrif á húsendur á áhrifasvæðinu talsvert neikvæð en óveruleg á aðrar tegundir.

Vilja að árnar verði friðaðar

Í athugasemdum Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn er bent á að Svartá/Suðurá sé eina vatnakerfið utan Mývatns og Laxár þar sem húsendur halda til allan ársins hring. „Það er eitt af meginatriðum við vernd stofnsins, að hann hafi athvarf á öðru kerfi þegar eitt brestur. Á það hefur reynt a.m.k. einu sinni (1989) eftir að farið var að fylgjast reglulega með stofninum (1975). Hin þrönga útbreiðsla húsandarinnar undirstrikar hve sérhæfð tegund hún er og ætti að gefa tilefni til friðlýsingar árinnar. Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn leggur til að Svartá og Suðurá verði friðlýstar með þetta í huga.“

Glæfra í Svartárgili er á því svæði sem vatnsrennslið yrði …
Glæfra í Svartárgili er á því svæði sem vatnsrennslið yrði skert mjög ef til virkjunar kæmi. Af Facebook-síðu Verndarfélags Svartár og Suðurár

Jón Aðalsteinn, formaður VSS, segir enga þjóðhagslega hagsmuni kalla á virkjun Svartár og ekki heldur hagsmunir innan sveitarfélagsins. Þótt virkjunin yrði lítil að afli eigi að koma henni fyrir í viðkvæmri á með einstöku lífríki og miða verði við það við ákvarðanatökuna. Hann segir að þegar rætt sé um stærð virkjana sé alltaf miðað við Kárahnjúkavirkjun, langstærstu vatnsaflsvirkjun á Íslandi. „En allar virkjanir virðast litlar í þeim samanburði, meira að segja Búrfellsvirkjun.“

Lagt til að Skjálfandafljót og nágrenni fari í verndarflokk

Jón segir enga tilviljun að Svartárvirkjun sé hönnuð rétt undir 10 megavöttum. Virkjanir af þeirri stærð fari ekki sjálfkrafa í umhverfismat Skipulagsstofnunar og auk þess eru þær ekki teknar fyrir hjá verkefnastjórn rammaáætlunar. Hann bendir á að í þingsályktunartillögu 3. áfanga rammaáætlunar, sem lögð hefur verið fram á Alþingi og bíður afgreiðslu, er lagt til að Skjálfandafljót falli í verndarflokk og jafnframt að sú vernd nái til aðliggjandi vatnsfalla á vatnasviði fljótsins, m.a. Svartár og Suðurár. Sigrún Magnúsdóttir, ráðherra umhverfismála  lagði tillöguna óbreytta fyrir Alþingi árið 2015 og hið sama gerði eftirmaður hennar, Björt Ólafsdóttir, ári síðar. „Samkvæmt þessari tillögu er hluti af Svartá í verndarflokki og verði hún samþykkt er virkjun hennar óheimil og engin fótur fyrir hugmyndum um slíkt lengur,“ segir Jón. Hann segir ljóst að sveitarstjórn Þingeyjarsveitar geti ekki gefið út framkvæmdaleyfi fyrir virkjun í Svartá fyrr en þetta verði að fullu komið á hreint.

Segja samninginn fela í sér ríkisstyrk

Verndarfélagið vekur í athugasemdum sínum einnig athygli á því að helmingur þeirra vatnsréttinda sem til stendur að virkja er í eigu ríkisins, þ.e. almennings. Að mati félagsins benda allar líkur til þess að ekki hafi verið rétt staðið að afhendingu þeirra réttinda í samningum. Verndarfélagið hefur nú sent formlega kvörtun til ESA (Eftirlitsstofnunar EFTA) þar sem farið er fram á að samningur um rannsóknar- og virkjunarleyfi í Svartá milli SSB Orku og ríkissjóðs Íslands, sem undirritaður var árið 2013 vegna afnota framkvæmdaraðila á vatnsréttindum ríkisjarðarinnar Stóru-Tungu, verði endurskoðaður. 50% vatnsréttinda Svartár sem fyrirhugað er að virkja tilheyra Stóru-Tungu. 

„Við teljum að þessi samningur standist ekki Evrópulög,“ segir Jón. „Í fyrsta lagi hvernig að honum var staðið og í öðru lagi að ekki hafi verið farið eftir EES-reglum, sérstaklega hvað varðar þá grein samningsins sem fjallar um ríkisaðstoð. Við teljum að samningurinn feli í sér beina ríkisaðstoð við einkafyrirtæki og þarna hafi almenningseign verið afhent einkaaðila og ekki á markaðslegum forsendum eins og á að gera.“

yrirhuguð stíflu- og inntaksmannvirki Svartárvirkjunar, horft yfir Svartá til norðvesturs. …
yrirhuguð stíflu- og inntaksmannvirki Svartárvirkjunar, horft yfir Svartá til norðvesturs. Gagnrýnt hefur verið að myndin sýni ekki skert rennsli neðan stíflu. Úr frummatsskýrslu Verkís á Svartárvirkjun

Það er því mat VSS að á meðan ekki hafi verið skorið úr um „lögmæti þess hvernig vatnsréttindi ríkisins voru afhent einkaaðila ber yfirvöldum skylda til að bíða átekta með alla umfjöllun og leyfisveitingar“.

Á næstu vikum mun skýrast hvort ESA tekur kvörtunina til meðferðar.

Hagsmunaárekstrar og hálfsannleikur

Jón bendir ennfremur á að Verkís, sem geri frummatsskýrsluna fyrir SSB Orku, sé hönnuður virkjunarinnar og hafi því mikilla hagsmuna að gæta. „Okkur finnst frummatsskýrslan bera keim af þessum hagsmunaárekstrum.“ Í athugasemdum VSS er á nokkrum stöðum bent á það sem félagið kallar „hálfsannleik“ hvað varðar ýmsar niðurstöður á umhverfisáhrifum hinnar fyrirhuguðu framkvæmdar.

Bent er m.a. á að „afar villandi“ sé að fullyrða að Svartárvirkjun stuðli að sjálfbærri þróun. Hún myndi m.a. spilla fyrir ferðaþjónustu á svæðinu, veiðinytjum og þjónustu við veiðimenn. „Hún mun enn fremur spilla fyrir möguleikum á frekari þróun ferðaþjónustu, sem gæti haft heillavænleg áhrif á nærsamfélagið, m.a. skapað störf í byggðinni sem virkjunin gerir ekki. Enn fremur hefði virkjunin mikil áhrif á viðkvæma fuglastofna, silung og gróður, sem er alls ekki í anda sjálfbærrar þróunar,“ segir í athugasemdum Verndarfélagsins.

Þá segir að upplýsingar um rennsli árinnar, afl virkjunarinnar og hve miklu vatni á að hleypa niður farveginn séu mjög tortryggilegar. „Áformin munu ekki standast, þar sem tölur gera ekki ráð fyrir sveiflum eftir árstíðum og þeirri staðreynd að harðast verður gengið eftir afhendingu umsaminnar raforku að vetri til þegar rennsli er minnst og mest hætta er á krapa og stíflum í ánni.“

Að mati Verndarfélagsins er í frummatsskýrslunni „lýst ákaflega stórkarlalegum framkvæmdum í viðkvæmum aðstæðum sem munu kollvarpa nánasta umhverfi. Allt myndefni af þessum mannvirkjum og umhverfi þeirra er afar tortryggilegt. Svartá neðan stíflu er einatt sýnd með fullu rennsli, þar sem ætti að vera nánast þurr farvegur, sem ekki verður túlkað öðruvísi en sem tilraun til að villa vísvitandi um fyrir lesendum.“

Draga fram fegraða mynd

Telur félagið ljóst að farvegur Svartár neðan virkjunar kunni að verða þurr vikum og jafnvel mánuðum saman með „algjörri eyðileggingu vistkerfis árinnar á þeim kafla og alvarlegum áhrifum neðan útfalls virkjunarinnar þar sem frumframleiðni í ánni eyðileggst á 3 km kafla vegna vatnsþurrðar. Slík framkvæmd, að þurrka upp árfarveginn eða því sem næst á löngum kafla hlýtur einnig að stangast á við ákvæði vatnalaga“.

Allt ber því að sama brunni að mati Verndarfélagsins: „Skýrsluhöfundar leggja langa lykkju á leið sína til að draga upp fegraða mynd af besta mögulega ástandi árinnar á góðum sumardegi en koma sér hjá því að ræða raunveruleg áhrif framkvæmda á ástand árinnar með tilliti til þeirra sveiflna sem óhjákvæmilegar eru í íslenskri náttúru.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert