Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur, sem dæmdi karlmann í gæsluvarðhald til 16. nóvember. Maðurinn hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 25. ágúst en hann er „undir sterkum grun um aðild að innflutningi á miklu magni hættulegra fíkniefna,“ að því er segir í dómnum.
Manninum er gefið að sök að hafa reynt að smygla miklu magni af amfetamínvökva, í bíl sem var um borð í Norrænu. Fram kemur að fjórir menn, allir pólskir, hafi verið í gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 25. ágúst en við skoðun á bifreiðinni komi í ljós að froðukenndur vökvi hafi lekið úr undirvagni bifreiðarinnar. Við frekari skoðun kom í ljós að þar var á ferð amfetamínvökvi.
Fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem féll 20. október, að lögregla hafi komið fyrir njósnabúnaði í bifreiðinni og fylgst með ferðum hennar suður til Reykjavíkur. Þá hafi fengist heimild til að hlera síma eins þeirra grunuðu í málinu.
Þegar bifreiðinni var ekið inn í bílskúr í Reykjavík, daginn eftir komu ferjunnar, hafi lögreglan látið til skrarar skríða og handtekið mennina fjóra.
Í dómnum kemur fram að í bifreiðinni hafi verið 1.328 milliítrar af vökva en að hólfið hafi rúmað 5.240 millilítra.
Fram kemur að brot mannsins geti varðað allt að 12 ára fangelsi. „Með hliðsjón af alvarleika sakarefnis og þess að ríkir almannahagsmunir standi til þess að menn gangi ekki lausir þegar svo standi á sé þess krafist að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi áfram, á meðan mál hans er til meðferðar fyrir dómi.“