Leita ferðamannsins á Sólheimasandi

Bíll mannsins fannst við flugvélarflakið á Sólheimasandi.
Bíll mannsins fannst við flugvélarflakið á Sólheimasandi. Mbl.is/Jónas Erlendsson

Leit er hafin á Sólheimasandi að bandarískum karlmanni sem kom hingað til lands 12. október og átti bókað flug úr landi næsta dag, en sem ekkert hefur spurst til síðan.

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu var tilkynnt um hvarf mannsins í gærkvöldi og fór lögreglan á Suðurlandi að svipast um eftir manninum nú í morgun. Bíll hans fannst nú fyrir hádegi við flugvélarflakið á Sólheimasandi. Þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarsveitir á Suðurlandi hafa því verið kallaðar út og eru byrjaðar að leita mannsins.

Vísir greindi frá því í morgun að maðurinn heitir Jaspinderjit Singh. Vinur bróður Singh auglýsir eftir honum á Twitter og segir hann hafa átt bókað flug til Parísar í gegnum Ísland þann 12. október og fjölskyldan hafi ekki heyrt í honum síðan.

Singh er sagður vera um 173 sentímetrar á hæð og af indverskum uppruna og að hann gangi jafnan með svört gleraugu. Síðast þegar sást til hans var hann klæddur í svartan Puma-jakka með hvítum röndum á ermunum, gráar buxur og í svarta og hvíta Nike-strigaskó. Þá var hann með North Face-bakpoka á sér. 


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert