„Augljóst er að í landinu ríkir alvarleg pólitísk kreppa sem leitt hefur til þess að enn og aftur stendur þjóðin frammi fyrir því að kjósa til Alþingis í lok vikunnar,“ sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, í ávarpi sínu við upphaf formannafund sambandsins í morgun.
Fundurinn er haldinn annað hvert ár, eða þau ár sem þing ASÍ eru ekki haldin. Allir formenn þeirra 49 stéttarfélaga sem eiga aðild að ASÍ sitja fundinn.
Gylfi bætti við að þrátt fyrir mikinn hagvöxt og uppbyggingu séu þung ský farin að myndast yfir útflutningsstarfsemi, einkum hjá litlum og meðalstórum fyrirtækjum, auk þess sem vinnumarkaðurinn sé í algjörri biðstöðu vegna kosninga og undirliggjandi óánægju.
„Enginn vafi er á því að pólitískur óstöðugleiki á vettvangi stjórnmálanna hefur haft mjög neikvæð áhrif á vinnumarkaðinn. Óstöðugleikinn hefur leitt til meiri átaka og hamlað því að við getum þróað hann til betri vegar til að geta mætt nýjum áskorunum,“ sagði hann.
Í máli Gylfa kom fram að enginn stjórnmálaflokkur hafi, að því er hann best veit, tekið upp áherslur ASÍ um ábyrgan vinnumarkað með innleiðingu keðjuábyrgðar aðalverktaka og aðgerðir til að sporna gegn félagslegum undirboðum og kennitöluflakki. Miklu meira fari fyrir loforðum um lækkun tryggingagjalds heldur en hækkun atvinnuleysisbóta til jafns við kaupgjald. Einnig séu hámarksgreiðslur í fæðingarorlofi ennþá langt undir meðaltekjum.
„Þetta áhugaleysi um brýn málefni almenns launafólks er okkur mikið áhyggjuefni sem við verðum einfaldlega að bregðast við, bæði með aukinni áherslu á að kynna þau álitaefni og vandamál sem félagsmenn okkar standa frammi fyrir og á endanum með beinni kröfugerð við gerð kjarasamninga.“
Gylfi hélt því fram að samstaða sé á milli þingflokkanna um að halda hlífðarhendi yfir ákvörðunum kjararáðs og að ráðið hafi haft samráð við forystu flokkanna á Alþingi vorið 2016, áður launahækkanir til æðstu ráðamanna og embættismanna voru ákveðnar.
Hann sagði einnig að eitthvert form fastgengisstefnu sé að mörgu leyti heppilegra en fljótandi gengi með verðbólgumarkmiði. Víðtækt samkomulag þurfi að nást ef það eigi að verða að veruleika. „Það er enginn vafi á því að ábati launafólks og almennings af slíku samkomulagi er gríðarlegur, því þannig gætum við bæði tryggt mun lægri verðbólgu og vaxtastig, í landi þar sem almenningur þarf að ráðstafa fimmtungi sinna ráðstöfunartekna í hærri húsnæðisvexti en annarsstaðar í Evrópu,“ greindi hann frá.
Gylfi talaði um að kjarasamningar aðildarfélaga ASÍ muni losna á næsta ári, annað hvort í ársbyrjun vegna forsendubrests eða í árslok er þeir renna sitt skeiða á enda í lok nóvember. Sagði hann ljóst að aðildarfélög ASÍ fari inn í næstu viðræður á óbreyttum forsendum frá síðustu lotum. „Við þessar aðstæður verða aðildarfélög okkar á almennum vinnumarkaði að freista þess að halda í horfinu og sækja á um ,,leiðréttingu‘‘ sinna félaga á sama tíma og margar greinar atvinnulífsins standa a.m.k. á veikari stoðum en síðast þegar við vorum með opna samninga.“
Hann taldi jafnframt að ekki sé að óbreyttu forsenda fyrir breiðfylkingu í komandi viðræðum við atvinnurekendur.
Loks minntist Gylfi á samstöðuvakningu kvenna undir yfirskriftinni „metoo“ eða „églíka“ og sagði ekki annað hægt en að dást að framtakinu. „Það er einlæg von mín og ósk að allir þeir sem eru misrétti beittir á vinnumarkaði eigi sér bæði skjól og stuðning hjá stéttarfélögunum í landinu því þetta er málefni sem við eigum og verðum að láta okkur varða.“