Aðeins 63% barna í Reykjavík geta lesið sér til gagns þegar þau ljúka öðrum bekk. Þetta er 4,5 prósentum lægra hlutfall en í fyrra. Þetta kemur fram í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem fulltrúarnir lögðu fram á fundi skóla- og frístundaráðs borgarinnar í dag.
Fulltrúarnir lýsa yfir áhyggjum sínum af niðurstöðu lesskimunar í 2. bekk 2017 en árangur fer versnandi á milli ára. „Slík staða er óviðunandi og brýnt er að sem fyrst verði gripið til úrbóta í þeim skólum sem verst standa,“ segir í bókuninni.
Á meðal þess sem fram kemur í minnisblaði til borgarinnar er að hlutfall þeirra sem geta lesið sér til gagns hefur á milli ára lækkað úr 66% í 63%. Þar munar þremur prósentustigum.
Mikilvægt sé að skoða vel með skólunum hvaða orsakir liggi að baki og hvað hægt sé að gera til að bæta úr þessu. „Athygli vekur að 85% nemenda geta lesið sér til gagns í þeim skóla sem best stendur, samkvæmt fimm ára meðaltali 2013-2017, samanborið við 40% nemenda í þeim skóla sem verst stendur.“
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja til að skólastjórar kynni niðurstöðurnar fyrir nemendum og foreldrum. Foreldrar fái einstaklingsbundnar upplýsingar um frammistöðu barna sinna í lesskimuninni. „. Auk þess er mikilvægt að foreldrar fái upplýsingar um frammistöðu þess skóla í lesskimun, sem barn þeirra gengur í, samanborið við meðaltal annarra skóla borgarinnar. Aukin upplýsingagjöf milli heimila og skóla er af hinu góða og hvetur foreldra til ríkari þátttöku í námi barna sinna.“