„Þetta var mjög saklaust“

Vilhjálmur Árnason.
Vilhjálmur Árnason. mbl.is/Sigurður Bogi

„Ég fékk lögreglumann til að keyra þarna framhjá rétt á meðan myndatakan fór fram,“ segir Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við mbl.is. Mynd á Facebook-síðu Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi þar sem Vilhjálmur segir umferðaröryggi vera númer eitt hefur vakið talsverða athygli.

Þar sést Vilhjálmur standa við Grindavíkurveg en í bakgrunni má sjá lögreglubíl. Lögreglan á að vera hlutlaus stofnun í samfélaginu en mynd Vilhjálms er notuð til að auglýsa Sjálfstæðisflokkinn vegna alþingiskosninganna á laugardag.

Frá Grindavíkurvegi.
Frá Grindavíkurvegi. mbl.is/Sigurður Bogi

Vilhjálmur segir að þetta hafi verið lögreglumaður úr Grindavík, sem hafi verið við venjubundið eftirlit á veginum og hann hafi keyrt einu sinni þarna framhjá. „Þetta var mjög saklaust.“

Einn notandi á Facebook skrifar undir myndina að hann hafi ekið framhjá þegar myndatakan fór fram, á blindhæð. Ljósin á lögreglubílnum hafi verið blikkandi og viðkomandi hélt að hann væri að keyra fram á slysstað, ekki auglýsingamyndatöku.

Vilhjálmur segir að þetta hafi ekki horft svona við honum en bíllinn hafi ekki verið á blindhæð. „Hann keyrði hægt og setti ljósin á meðan myndinni var smellt af og hélt svo áfram. Þetta tók mjög stutta stund,“ segir Vilhjálmur en hann bætir við að þetta hafi verið sýnileg löggæsla á hættulegum stað:

„Þeir voru sýnilegir á Grindavíkurveginum, sem er mjög hættulegur. Þetta var sýnileg löggæsla og við nýttum tækifærið á meðan og tókum myndina.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert