Hærri tollar og stærra bákn með inngöngu í ESB

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. mbl.is/Hanna

Aðild að Evrópusambandinu hefði í för með sér fjölgun tollvarða um nokkur hundruð og hækkun á tolli á flestum vörum auk þess sem meirihluti tekna af tollheimtu rynni til Evrópusambandsins. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu um ut­an­rík­is­viðskipti Íslands og þátt­töku í fríversl­un­ar­viðræðum EFTA sem utanríkisráðuneytið kynnti á dögunum. 

„Við erum með frjálslyndari viðskiptastefnu en Evrópusambandið og því er ómögulegt fyrir okkur sem höfum frjálslyndar stjórnmálaskoðanir að styðja aðild að Evrópusambandinu,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

Í gögnum sem tengjast aðildarviðræðunum kemur fram að aðild að tollabandalagi ESB hefði kallað á margvíslegar kerfisbreytingar. Ein þeirra væri upptaka 15-20 nýrra tollatölvukerfa en kostnaðurinn við þá einu breytingu er áætlaður 3,8 milljarðar íslenskra króna. 

Eins og greint var frá í Morgunblaðinu fyrir rúmri viku bera mun fleiri toll­skrár­núm­er hér á landi eng­an al­menn­an toll borið sam­an við fjölda toll­skrár­núm­era í ríkj­um ESB og í hinum EFTA-ríkj­un­um. Þá er meðaltoll­ur lægri hér á landi en í ná­granna­lönd­un­um.  Í dag er hlut­fall þeirra toll­skrár­núm­era sem ekki bera neinn toll rétt tæp­lega 90% samanborið við 26% hjá ESB. 

Með inngöngu færi hlutfallið niður í 26%. Við sæjum tolla setta á vörur sem við erum löngu búin að fella tolla af og viðskiptaumhverfi okkar myndi flækjast,“ segir Guðlaugur Þór. Hann nefnir einnig að Ísland verndi aðeins lítinn hluta af landbúnaði sínum en Evrópuríkin verndi fleiri greinar. 

Veruleg fjölgun hjá tollinum

Auk þess þyrfti að fjölga tollvörðum. Hjá íslenskum tollyfirvöldum störfuðu 168 manns við tollamál en hjá tollyfirvöldum á Möltu (415.000 íbúar) störfuðu um 430 manns, og í Lúxemborg (500.000 íbúar) störfuðu um 495 manns. Í skýrslu framkvæmdastjórnar ESB segir að í ljósi stærðargráðu þess verkefnis sem íslensk tollyfirvöld standi frammi fyrir í tengslum við ESB-aðild þyrfti að auka við starfsmannafjöldann.

Guðlaugur Þór segir að Ísland sé skólabókardæmi um mikilvægi fríverslunar. Með því að versla við önnur lönd hafi þjóðin komist í bjargálnir. 

Við vorum ein fátækasta þjóð Vestur-Evrópu fyrir 100 árum en nú erum við ein sú ríkasta. Þetta hefði aldrei getað gerst ef við hefðum ekki fengið aðgang að öðrum mörkuðum og ef okkar markaðir væru ekki opnir öðrum.“

Mýta um 90%

Svar utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Alberti Guðmundssyni, varaþingmanni Sjálfstæðisflokksins, leiddi í ljós að Ísland tæki aðeins 13% af gerðum Evrópusambandsins en ekki 90% eins og oft hefur verið nefnt í þessu samhengi að sögn ráðherra. 

„Það hefur verið mikil óánægja meðal aðildarríkja með að fá mikið af lögum, reglugerðum og tilskipunum frá ESB,“ segir Guðlaugur Þór. „Hér hefur borið á gagnrýni á innleiðingu gerða vegna EES-samningsins en það má færa rök fyrir því að kostnaðurinn sé tiltölulega lítill fyrir að hafa aðgang að þessum markaði. Ef við færum inn í sambandið værum við í allt annarri stöðu því það er stór munur á 13% og 100%.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert