„Hún var bara niðurbrotin“

Veitingastaðurinn Nauthóll.
Veitingastaðurinn Nauthóll. Mynd af Facebook-síðu Nauthóls

Björn Ingi Björnsson, yfirmatreiðslumaður á Nauthól, segir að ung víetnömsk kona sem hefur starfað á veitingastaðnum í tvö ár hafi verið niðurbrotin þegar hún fékk að vita að henni verði vísað úr landi vegna breytinga á útlendingalögum.

„Henni finnst þetta mjög ósanngjarnt. Þetta var áfall, bæði fyrir hana og okkur. Þetta er vinur okkar og samstarfsfélagi,“ segir Björn í samtali við mbl.is. „Hún var bara niðurbrotin.“

Chuong Le Bui er 24 ára víetnamskur ríkisborgari sem hefur verið nemi á Nauthól, hefur ekki lengur landvistarleyfi sem námsmaður.

Hún er hálfnuð með lögbundinn námssamning sinn og er í á fyrstu önn í Menntaskólanum í Kópavogi.

Áður en lagabreytingin tók gildi um áramótin gátu þeir sem voru í fullu námi á háskólastig eða ígildi þess, eða í iðnnámi fengið dvalarleyfi á meðan þeir stunduðu hér nám. Núna er búið að fella iðnnámið í burtu.

Chuong Le Bui.
Chuong Le Bui. Ljósmynd/Aðsend

Vonar að um mistök sé að ræða

Björn Ingi segir að Chuong hafi ætlað að hætta að mæta í skólann þegar hún frétti af ákvörðuninni en hann hafi hvatt hana til að halda áfram að mæta og halda sínu striki, en málinu hefur verið áfrýjað.

„Ég held að það sjái það allir að þetta er eitthvað sem er ekki hægt að gera fólki. Að það sé hálfnað með nám og því sé vísað úr landi nánast fyrirvaralaust. Ég vona að um mistök sé að ræða en ekki einhver ásetningur um að setja iðnnám niður. Ég trúi því varla að menn myndu ganga svo langt,“ bætir hann við.

Hann segir að gríðarleg vöntun sé á nemum í matreiðslu og faglærðum matreiðslumönnum hér á landi vegna vaxtar ferðaþjónustunnar. Því skjóti það skökku við að vísa Chuong úr landi.

Hafði fengið framlengingu 

Í bréfi sem hann skrifaði fjölmiðlum í gær sagði hann hana vera besta nemann á Nauthól, að öðrum ólöstuðum, og efni í frábæra matreiðslukonu.

„Mér finnst þessi ákvörðun Útlendingastofnunnar fráleit og sérstaklega í ljósi þess að Chuong hafði í febrúar fengið framlengingu á námsmannaleyfinu sínu en núna  á að senda hana heim,“ skrifaði hann.

„Ég get ekki túlkað þessi lög öðruvísi en að þau  gengisfella okkar iðnmenntun eins og hún sé minna virði en háskólagráður og ég hallast helst að og í raun vona að hér sé um einhvers konar mistök við lagabreytingu að ræða,“ skrifaði hann einnig.  

„Rétt skal vera rétt. Hún fékk leyfi til að hefja nám hér á landi í matreiðslu og hún skal fá að ljúka því námi og ekkert pennastrik eða mistök á Alþingi skal fá að breyta því þar sem þá er í mínum augum verið að vega gróflega að hennar réttindum til náms og gera lítið úr iðnmenntun.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert