„Nafngreindum aldrei þessa menn“

Höfuðstöðvar 365.
Höfuðstöðvar 365. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér finnst þetta sorglegt og alls ekki það sem við áttum von á,“ segir Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365, um nýfallinn dóm yfir fjórum fréttamönnum fyrirtækisins.

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur dæmdi í dag fjórmenningana til að að greiða tveim­ur karl­mönn­um miska­bæt­ur vegna um­fjöll­un­ar í miðlum 365 um Hlíðamálið svo­kallaða, en menn­irn­ir voru sakaðir um kyn­ferðis­brot árið 2015.

Þá dæmdi héraðsdóm­ur nokk­ur um­mæli sem birt­ust m.a. í Frétta­blaðinu dauð og ómerk. Þar á meðal voru ummæli um að íbúð í Hlíðunum væri útbúin til nauðgana.

Nadine Guðrún Yaghi var dæmd til að greiða hæstu bæturnar og skal hún samkvæmt dómnum greiða hvorum manni 700 þúsund krónur. Þeir kröfðust 10 milljóna, hvor um sig.

Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365.
Kristín Þorsteinsdóttir, aðalritstjóri 365. mbl.is

Kristín segir við mbl.is að 365 ætli að áfrýja dómnum. Niðurstaðan hafi komið þeim mjög á óvart. „Ég lít á dóminn sem aðför að fjölmiðlum og blaðamannastéttinni,“ segir hún og bætir við að henni þyki langt gengið í að takmarka umfjöllun um rannsókn á kynferðisbrotamálum. „Ég er ósammála því að ekki megi fjalla um mál sem eru til rannsóknar,“ segir hún.

Hún hafnar því að eitthvað í fréttaflutningi miðla 365 hafi betur mátt fara. Allt það sem fram hafi komið í fréttunum hafi verið byggt á kæru sem lögð hafi verið fram í málinu sem og heimildamönnum úr mörgum áttum. „Við nafngreindum aldrei þessa menn og við vorum með fyrirvara í fréttunum, í bak og fyrir.“ Hún heldur áfram: „Þetta er í annað skiptið á örfáum dögum sem verið er að þrengja að okkur fjölmiðlamönnum. Ég bara skil þetta ekki,“ segir hún og vísar þar til lögbanns Glitnis HoldCo á hendur Stundinni og Reykjavík Media.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert