Samningur um uppbyggingu í Hlíðarfjalli undirritaður

Samningur um stofnun undirbúningsfélagsins Hlíðarhryggs ehf. var undirritaður í húsakynnum Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar í gær, en líkt og Morgunblaðið greindi frá í gær er félaginu ætlað að skoða möguleika til umsvifamikillar uppbyggingar í Hlíðarfjalli. Markmiðið er að svæðið verði notað til útivistar og afþreyingar allan ársins hring.

Að félaginu standa Sannir landvættir, Íslensk verðbréf, Yrki arkitektar, Akureyrarbær, Verkís og Umsýslufélagið Verðandi og byggist tillaga hópsins á að taka allt Hlíðarfjallssvæðið í sína umsjá næstu 35-40 árin, byggja það upp og markaðssetja það.

Að sögn Arnórs Þóris Sigfússonar, forsvarsmanns Hlíðarhryggs ehf., býður svæðið upp á mikla möguleika. „Flugvöllur er í næsta nágrenni og á annað hundrað þúsund farþegar heimsækja bæinn með skemmtiferðaskipum. Hlíðarfjall er hins vegar vannýtt vegna þess að á vorin slokknar á starfseminni og hún vaknar ekki til lífsins fyrr en það fer að snjóa. Víða erlendis eru dæmi um að skíðasvæði séu vel nýtt á sumrin.“

Félagið hyggst hefjast handa við að rýna í svæðið og ástandið á húsnæði, tækjum og lögnum. Innan fárra vikna mun það birta skýrslu þar sem möguleikar á rekstri og fjármögnun verða greindir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka