Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra hefur enga skýringu á því hvers vegna breytingar voru gerðar á útlendingalögum þess efnis að þeir sem stunda iðnnám fá ekki lengur dvalarleyfi hérlendis.
Aðra sögu er að segja um þá sem stunda nám á háskólastigi eða ígildi þess.
Ung víetnömsk kona sem hefur starfað á veitingastaðnum Nauthól í tvö ár fékk að vita að henni verði vísað úr landi vegna þessara breytinga á lögunum.
Sigríður kveðst hafa rætt við þá sem voru í þverpólitískri nefnd sem starfaði við útlendingalögin og enginn þar kannast við að sérstök umræða hafi farið fram um þetta.
„Ég skil það svo að það hafi ekki verið nein sérstök fyrirætlan um að breyta þessu fyrirkomulagi. Mér sýnist ekkert fjallað um það í greinargerð eða öðru þannig að það er ekkert sem bendir til þess,“ segir hún og telur að ónákvæmni í orðalagi hafi orðið þess valdandi að skilgreining á námi útlendingalögum hafi verið þrengd, þannig að hún eigi bara við um háskólanám, eða aðfararnám fyrir háskólanám.
Sigríður hefur skoðað málið í dag og athugað hvort hægt sé að breyta þessari skilgreiningu með reglugerð en telur að það dugi ekki. Þess vegna þurfi lagabreytingu til.
Hún bætir við að nokkur sambærileg mál bíði afgreiðslu hjá Útlendingastofnun en telur að stofnunin muni bíða með að afgreiða þau. Aðspurð telur hún að engum hafi verið vísað úr landi út af máli sem þessu.
Sigríður bendir á að gerð hafi verið lagabreyting á útlendingalögunum í svipuðu máli undir lok síðasta þings, sem laut að skiptinemum í framhaldsskólum sem höfðu líka fallið á milli skips og bryggju í nýju löggjöfinni.
Hún tekur fram að Útlendingastofnun hafi afgreitt málin rétt miðað við núverandi lög. Hins vegar hafi stofnunin framan af þessu ári afgreitt beiðnir um endurnýjun á dvalarleyfi til þessara nema með vísan til þess að menn hefðu áður fengið dvalarleyfi samkvæmt eldri lögunum. Kærunefnd útlendingamála hafi svo komist að þeirri niðurstöðu í vor að ekki væri hægt að endurnýja dvalarleyfi á grundvalli brottfallinna laga.
Sigríður ætlar að leggja drög að nýju frumvarpi sem gæti verið tilbúið fyrir nýtt þing, sem hún vonar að komi sem fyrst saman eftir kosningar. Hvað varðar mál víetnömsku konunnar segir hún að konan hafi fengið synjun um dvalarleyfi en vonast til að þingið geti tekið afstöðu til málsins þegar það kemur saman eftir kosningar.