Vilja lækka fasteignaskatt í Reykjavík

Í gær var lögð fram tillaga í borgarráði um að lækka fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði í Reykjavík úr 0,2% niður í 0,18% af fasteignamati. Þá voru samþykktir auknir afslættir af fasteignagjöldum og fráveitugjöldum til eldri borgara og öryrkja sem mið taka af tekjum þeirra. Í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að áætlað sé að áhrif lækkunarinnar nemi 456 milljónum á næsta ári.

Tillagan er hluti af fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar sem verður tekin til umræðu á fundi borgarstjórnar 7. nóvember.

Haft er eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að lækkunin komi til vegna mikilla hækkana á fasteignaverði á undanförnum árum, en fasteignaskattar taka mið af metnu virði fasteignar.

Þessi lækkun er til þess gerð að milda áhrifin af fasteignaverðshækkunum en auk þess erum við að taka sérstakt tillit til aldraðra og öryrkja með auknum afsláttum,“ er haft eftir Degi.

Afslættir sem eldri borgarar og öryrkjar fá eru eftirfarandi samkvæmt breytingunni:

Viðmiðunartekjur
I. Réttur til 100% lækkunar
Einstaklingur með tekjur allt að 3.910.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur allt að 5.450.000 kr.

II. Réttur til 80% lækkunar
Einstaklingur með tekjur á bilinu 3.910.000 til 4.480.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 5.450.000 til 6.060.000 kr.

III. Réttur til 50% lækkunar Einstaklingur með tekjur á bilinu 4.480.000 til 5.210.000 kr.
Samskattaðir einstaklingar með tekjur á bilinu 6.060.000 til 7.240.000 kr.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert