Gáfu Barnaspítalanum milljón

Ágúst Arnar Ágústsson segir að sóknargjöldin verði greidd út í …
Ágúst Arnar Ágústsson segir að sóknargjöldin verði greidd út í nóvember. Mynd / Aðsend

Trúfélagið Zuism færði í dag Barnaspítala Hringsins 1,1 milljón í gjöf. Upphæðin er andvirði sóknargjalda þeirra sem sagt hafa sig úr félaginu að undanförnu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Deilur um yfirráð yfir trúfélaginu hafa staðið yfir undanfarið en fjölmargir Íslendingar skráðu sig í félagið gegn loforði um að fá sóknargjöldin endurgreidd. Það loforð hefur ekki verið efnt en ríflega 50 milljónir liggja inn á reikningi félagsins, og hafa legið síðan úr deilunum greiddist nýverið. Meðlimir Zuism hafa beðið í nærri tvö ár eftir greiðslunum.

Haft er eftir Ágústi Arnari Ágústssyni, forstöðumanni félagsins, í tilkynningu að ákveðið hafi verið að styrkja Barnaspítalann til tækjakaupa á búnaði til að auðvelda nálaísetningar hjá ungum börnum.

„Mikið var spurt um hvað yrði um sóknargjöld þeirra sem sögðu sig úr félaginu. Í staðinn fyrir að láta þá fjármuni renna til reksturs félagsins ákvað stjórnin að láta þá renna til Barnaspítala Hringsins. Við þökkum stuðninginn frá meðlimum félagsins og vonumst til að geta haldið áfram uppbyggingu í samfélaginu með þeirra aðstoð,“ segir Ágúst Arnar.

Það var sýslumaðurinn á Norðurlandi sem úrskurðaði nýlega að Ágúst Arnar væri formaður félagsins, að undangenginni rannsókn innanríkisráðuneytisins.

Í Fréttablaðinu í gær kom fram að félagið ynni nú að heimasíðu þar sem hægt verður að sækja um endurgreiðslu á sóknargjöldum. Henni yrði ýtt úr vör í nóvember. Meðlimir geti þar fengið endurgreiddan mestan part sóknargjalda sinna, að frádregnu umsýslugjaldi. „Það verður í nóvember, ég get að minnsta kosti sagt það,“ var haft eftir Ágústi.

Greint hefur verið frá því að Ágúst er annar bræðra sem kenndir hafa verið við Kickstarter. Einar, bróðir Ágústar, hlaut í sumar þriggja og hálfs árs fangelsisdóm fyrir fjársvik. Ágúst var ekki ákærður í því máli en báðir bræðurnir sættu rannsókn vegna málsins.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert