„Bensínmarkaðurinn hefur breyst mikið undanfarið. Koma Costco á markaðinn hafði vissulega mikil áhrif en það er samt ekki bara hægt að benda á Costco, þessi þróun er í raun sambærilega þróuninni á Norðurlöndunum þar sem sjálfsafgreiðsla hefur aukist mikið og neytendur líta fyrst og fremst á verðið fremur en þjónustuna,“ segir Hendrik Egholm, forstjóri Skeljungs, sem telur mikilvægt að draga lærdóm af komu Costco og reyna að aðlagast í samræmi við það.
Í morgun var tilkynnt að 29 manns hefði verið sagt upp hjá Skeljungi en samhliða því var ákveðið að leggja vörumerkið Skeljung niður. „Að okkar mati höfum við verið að nota bestu staðsetningarnar okkar fyrir Skeljungsstöðvar en Orkan er sterkasta vörumerkið okkar. Orkan býður upp á það sem Íslendingum líkar betur, lægra verð og minni þjónustu, þannig að ég fæ ekki séð af hverju við ættum að nota bestu staðsetningarnar undir bensínstöðvar sem eru ekki þær vinsælustu. Þar af leiðandi er rökrétt að breyta öllum afgreiðslustöðum Skeljungs í Orkuna og ég tel að það muni verða fyrirtækinu til góðs til framtíðar,“ segir Hendrik.
Að sögn Hendriks störfuðu tuttugu þeirra sem sagt var upp störfum í morgun á afgreiðslustöðvum Skeljungs, en alls 29 manns var sagt upp í morgun. „Það er náttúrlega alltaf erfitt að segja upp starfsfólki en þessar aðgerðir eru nauðsynlegar og skynsamleg ákvörðun fyrir fyrirtækið. Við munum halda áfram að leita leiða til að styrkja fyrirtækið og gera það arðbærara til framtíðar.“
Frétt mbl.is: Skeljungur segir upp 29 manns
Hendrik segir allt of margar bensínstöðvar vera á höfuðborgarsvæðinu og telur svæðið í raun of-þjónustað. „Við erum með allt of margar bensínstöðvar og ég veit að borgaryfirvöld eru sammála mér um það. Í Reykjavík er ein bensínstöð fyrir um það bil 2.700 manns en til samanburðar er ein bensínstöð fyrir hverja 5.700 manns í Þýskalandi.'“
„Við erum enn að vinna á fullu að því að greina markaðinn og staðsetningar stöðvanna, en ég tel það alveg ljóst að í náinni framtíð muni markaðurinn breytast þannig að það verði lögð mun meiri áhersla á verðið sem þýðir einfaldlega að það verði fleiri sjálfsafgreiðslustöðvar. Það hefur orðið mikil fækkun á fólki sem er tilbúið að borga premium verð fyrir premium þjónustu,“ segir Hendrik.
Spurður um það hversu stóran þátt hann telji Costco eiga í því að 29 manns hafi verið sagt upp og vörumerkið Skeljungur verði lagt niður segir Hendrik klárt mál að sá þáttur hafi verið stór. „Costco er samt sem áður ekki ástæðan fyrir öllu sem gerist á markaðnum. Við tókum stefnumótandi ákvörðun og í kjölfar hennar verður Skeljungur léttari á fæti. Við erum að breyta Skeljung í Orkuna af því að við teljum að það sé rétt og arðbær ákvörðun til framtíðar auk þess sem hún kemur til móts við þarfir neytenda. Costco áhrifin eru auðvitað staðreynd, það er ekki hægt að neita fyrir það, en Costco höfðu engin útslitaáhrif á þessa ákvörðun, við þurfum einfaldlega að aðlagast breyttu umhverfi.“