Tveir menn réðust á erlendan ferðamann fyrir utan verslunina Bónus á Laugavegi um sjöleytið í gærkvöldi. Ferðamaðurinn, sem er frá Taílandi, var fluttur á sjúkrahús með innvortis áverka og þurfti hann að gangast undir aðgerð.
Að sögn Gríms Grímssonar, yfirlögregluþjóns hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var maðurinn ekki hætt kominn eftir árásina. „Hann er ekki mikið slasaður en árásin var töluverð,“ segir Grímur í samtali við mbl.is.
Búið er að handtaka annan árásarmanninn, sem er ungur Íslendingur, en hins er leitað.
Ekki er grunur um að vopn hafi verið notað við árásina heldur hafi um barsmíðar verið að ræða. Ekki er vitað um tilefni árásarinnar.