„Blygðunarlaust“ reynt að bera fé á stjórnvald

VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja …
VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja stíflur við fimm fjallavötn. mbl.is/Golli

Athugasemdir frá sextán aðilum og umsagnir níu stofnana og sveitarfélaga hafa borist vegna skipulagstillagna er varða Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. Nokkrar stofnanir eiga enn eftir að skila umsögnum sínum.

Stjórn Landverndar er meðal þeirra sem gera athugasemdir. Hún hafnar bæði tillögu að breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagstillögu vegna fyrirhugaðrar virkjunar og rökstyður þá niðurstöðu sína í yfir sextán liðum. Telur Landvernd tillögurnar m.a. vera í ósamræmi við ákvæði laga um umhverfismat, að þær uppfylli ekki skilyrði náttúruverndarlaga og gangi í veigamiklum atriðum þvert á álit Skipulagsstofnunar á matsskýrslu fyrir virkjunina. Niðurstaða Landverndar er sú að skipulagstillögurnar séu „byggðar á forsendum sem ekki standast“.

Í umsögn Ferðamálastofu kemur m.a. fram að höfundar umhverfisskýrslu, sem fylgir skipulagstillögunum, hafi nokkra tilhneigingu til að telja áhrif á ferðamennsku jákvæðari en ástæða er til.

Minjastofnun gerir m.a. athugasemdir við að engin fornleifaskráning hafi verið gerð við eitt vatnanna sem til stendur að stífla á heiðinni og að í umhverfisskýrslunni segi að „ekki séu taldar líkur á að þar muni finnast minjar...“ Segir stofnunin að „ómögulegt sé að segja til um hvort minjar séu á svæðinu ef fornleifaskráning hefur ekki farið fram.“

Rætt á næsta fundi hreppsnefndar

Athugasemdafrestur vegna tillagnanna rann út 16. október. Skipulags- og byggingarfulltrúi, sem tók við þeim, segir að ákveðnar stofnanir hafi beðið um lengri frest til að skila umsögnum. Einhverjar eiga enn eftir að skila. Í gær voru innkomnar athugasemdir afhentar mbl.is og fleiri sem þess höfðu óskað. Fram að því höfðu þær eingöngu verið afhentar oddvita Árneshrepps og Verkís sem gerði matsskýrslu á umhverfisáhrifum virkjunarinnar og vann skipulagstillögurnar fyrir framkvæmdaaðilann VesturVerk.

Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps, segir að þar sem málið sé enn í ferli hjá skipulags- og byggingarfulltrúa hafi athugasemdirnar ekki verið ræddar á fundi sveitarstjórnar. Það verði líklega gert á næsta fundi.

Sveitarfélagi ber samkvæmt skipulagslögum að fara yfir athugasemdir við aðalskipulagsbreytingar, bregðast við þeim og gera eftir atvikum breytingar á skipulaginu, samþykkja það eða auglýsa að nýju innan 12 vikna frá því að athugasemdafresti lýkur. Hvað afgreiðslu deiliskipulags varðar er fresturinn helmingi lengri.

55 megavatta virkjun

VesturVerk, sem er í meirihlutaeigu HS Orku, hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja fimm stíflur við fjallavötn. Virkjunin yrði 55 megavött að afli og yrði raforkan að minnsta kosti fyrstu árin og áratugina að stórum hluta flutt út af Vestfjörðum.

Framkvæmdaaðili hefur lagt til að rafmagnið yrði tengt meginflutningskerfið með lagningu jarðstrengs yfir Ófeigsfjarðarheiði og vestur að Ísafjarðardjúpi og þaðan yfir Kollafjarðarheiði að Kollafirði í Reykhólahreppi og inn á Vesturlínu. Það er hins vegar Landsnets að meta og ákveða hvernig tengingu rafmagnsins verður háttað og er athugun á því enn skammt á veg komin.

Skipulagstillögurnar sem auglýstar voru nú snúast fyrst og fremst um gerð 25 kílómetra langra vinnuvega um fyrirhugað virkjunarsvæði Hvalárvirkjunar. Verði þær samþykktar og framkvæmdaleyfi fyrir veglagningunni veitt verða vegirnir lagðir er snjóa leysir í vor.

VesturVerk segir vinnuvegina nauðsynlega til að afla frekari gagna svo hægt sé að ljúka rannsóknum á svæðinu. Upphaflega stóð til að gera samtímis tillögu að nauðsynlegum endurbótum á vegi frá Trékyllisvík og inn í Ófeigsfjörð vegna þungaflutninga og lýsa betur tilhögun virkjunar en gert er í gildandi skipulagi. Frá því var horfið og ákveðið að skipta skipulagsbreytingunum í tvennt.

Þetta er meðal þess sem stjórn Landverndar gerir alvarlegar athugasemdir við. Hún segir að veglagningin um fyrirhugað virkjunarsvæði muni skerða óbyggð víðerni, sem standa skuli vörð um samkvæmt náttúruverndarlögum, gríðarlega stór eða um 180 ferkílómetra. „Það merkir að skerðing víðernanna kæmi þegar að mestu leyti til við gerð virkjunarveganna sem skipulagstillögunum er ætlað að vera grundvöllur framkvæmdaleyfis fyrir.“

Einnig telur Landvernd að uppskipting skipulagsgerðarinnar sé í ósamræmi við ákvæði og markmið laga um umhverfismat áætlana, umhverfismat framkvæmdarinnar og gildandi aðalskipulag. Þá er bent á að engin lýsing komi fram í tillögunum á því hvaða rannsóknir þær eigi að heimila, í hverju þær felist og hvernig tækjum yrði komið á staðinn. Skipulagi þurfi svo enn á ný að breyta á næstunni.

„Hér er hlutum snúið á haus,“ segir í athugasemdum Landverndar þar sem bent er á að uppbygging vegar að virkjunarsvæðinu, frá Trékyllisvík og inn í Ófeigsfjörð, hljóti að vera forsenda þess að fara með tæki, vinnubúðir og fleira á staðinn.

Nauðsyn vega stenst ekki skoðun

Í umsögn Ferðamálastofu kemur fram að það sé mat hennar að fullyrðing í umhverfisskýrslu skipulagstillagnanna um nauðsyn vinnuvega um svæðið standist ekki skoðun. „Tæki til rannsókna á náttúrufari eru yfirleitt létt en í þeim tilfellum sem þau eru of þung má notast við ofurjeppa eða þyrlur.“ Bendir Ferðamálastofa á fordæmi um slíkt, m.a. vegna rannsókna við Öskjuvatn.

Í umhverfisskýrslunni er auk þess bent á að vegirnir gætu nýst göngufólki. Ferðamálastofa er ósammála því. „Rétt er að benda á að uppbyggðir vegir af þessari stærðargráðu sem um ræðir eru sjaldnast eftirsóknarverðir af göngufólki.“ Ennfremur segir að mjög óvíst sé að það aðgengi sem vegirnir myndu skapa myndi opna nýjar ferðamannaleiðir. „Áhrif fyrirhugaðra vinnuvega og -búða á ferðamennsku og útivist á svæðinu er hins vegar í besta tilviki óviss en líklega neikvæð.“

Rennsli í fossinum Drynjanda myndi minnka verulega með virkjun Hvalár. …
Rennsli í fossinum Drynjanda myndi minnka verulega með virkjun Hvalár. Fossar njóta sérstakrar verndar í nýjum náttúruverndarlögum og þeim skal ekki raska nema að brýna nauðsyn beri til. mbl.is/Golli

Fyrirtæki sem starfar í þágu hluthafa

Landvernd gerir einnig athugasemd við að tillögurnar beinist að framkvæmd sem ekki varði neins konar innviðauppbyggingu í Árneshreppi, eins og markmiðið var með núgildandi aðalskipulagi, og telur enga almannahagsmuni í húfi sem krefjist röskunar á fossum og stöðuvötnum á svæðinu sem njóti sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum. „Starfsemi einkafyrirtækis á samkeppnissviði eins og um ræðir í tilviki orkuvinnslu og -sölu getur trauðla rökstutt slíka röskun með vísan til almannahagsmuna, enda starfar það ekki í almannaþágu heldur í þágu hluthafa sinna. Ljóst er að gera yrði afar ríkar kröfur til sönnunar um slíka almannahagsmuni.“

Í athugasemdum Landverndar er bent á að skipulagstillögurnar geri ráð fyrir framkvæmd sem fyrst og fremst myndi hafa áhrif á fjárhagslega hagsmuni VesturVerks og aðaleiganda þess, HS Orku, en einnig Péturs Guðmundssonar aðaleiganda lands og vatnsréttinda í Ófeigsfirði og að nokkru barónsins Felix von Longo-Liebenstein, eigenda lands og hluta vatnsréttinda í Eyvindarfirði, en ekki sveitarfélagsins.

Samkvæmt útreikningum sem hagfræðideild Háskóla Íslands gerði yrðu tekjur VesturVerks 1,5 milljarðar króna fyrsta rekstrarár virkjunarinnar. Á sömu forsendum eru leigugreiðslur til eigenda Ófeigsfjarðar áætlaðar hækkandi frá tæpum 30 milljónum króna árlega í 160 milljónir á ári í þau 60 ár sem samningurinn gildir. „Þetta, sett í samhengi við þær 15 milljónir árlega, sem haft er eftir oddvita Árneshrepps að mannvirki Hvalárvirkjunar myndu skila nettó inn í samfélagið, sýnir um hvaða fjárhagslegu hagsmuni og hverra hér er vélað,“ segir í athugasemdum stjórnar Landverndar.

Fé borið á hreppinn í formi smáaura

Þá gagnrýnir Landvernd harðlega vilyrði VesturVerks um að kosta klæðningu á skólahús í hreppnum eins og fram kemur í bréfi Vesturverks til oddvita Árneshrepps í júní 2017. Segja samtökin þetta „ámátlegar tilraunir vinnslufyrirtækis í samkeppnisrekstri til þess að bera fé á hreppinn í formi smáaura sem henda á inn í samfélagið sem eingreiðslu með undirliggjandi skilyrði um þægð.“

Einnig sé gefinn ádráttur um rafmagnstengingar sem VesturVerk hafi ekkert forræði á, enda Landsnets að tengja virkjanir við flutningsnet raforku lögum samkvæmt. „Sjaldan eða aldrei hefur svo blygðunarlaust verið reynt að bera fé á fjölskipað stjórnvald til að liðka fyrir áætlunum sem bera í sér væntingar um hagnað á stórum skala - fyrir vinnslufyrirtækið.“

Stjórn Landverndar segir allt tal um raforkuöryggi og raforkutengingar við Ísafjörð af hálfu vinnslufyrirtækisins án innihalds, „enda sé það ekki á þess færi að ráðstafa því samkvæmt raforkulögum.“ Það sama eigi við um hugmyndir um jarðstreng frá virkjun vestur yfir Ófeigsfjarðarheiði sem fulltrúi VesturVerks hafi opinberlega ýmist sagt fyrirtækið vilja, gera að skilyrði eða ætla beinlínis að leggja. Bendir Landvernd á að samkvæmt raforkulögum hafi sá sem framleiði rafmagn ekkert að gera með flutning þess, á því hafi Landsnet einkarétt.

„Vinnslufyrirtækið mun að sjálfsögðu einfaldlega selja raforku til hæstbjóðanda á hverjum tíma, enda er það eðli frjálsar atvinnustarfsemi að hámarka arð til hluthafa sinna og fullkomlega eðlilegt í frjálsri samkeppni,“ segir í athugasemdum Landverndar. „Sannarlega munu hvorki Árneshreppur né aðrir, sem ekki eru hluthafar í Vesturverki ehf., beint eða í gegnum aðaleiganda fyrirtækisins HS Orku, hafa nein áhrif á ákvarðanir um sölu raforkunnar sem fengist úr Hvalárvirkjun.“

Þá telur stjórn Landverndar mikilvægt að kortleggja hagsmuni byggðarlagsins vegna þess valkosts að setja á stofn Strandaþjóðgarð, í samræmi við ályktun síðasta aðalfundar samtakanna sem ráðgera að vinna greiningu hið fyrsta á þeim tækifærum sem felast í slíku fyrir samfélagið. „Hér gefst tækifæri til að stofna fyrsta verndarsvæði Íslands fyrir óbyggð víðerni með friðlýsingu skv. 45. gr. náttúruverndarlaga á stóru landsvæði þar sem ummerkja mannsins gætir lítið sem ekkert og náttúran fær að þróast án álags af mannlegum umsvifum.“

Kostnaðarþátttaka í hitaveitu rædd á fundi

Oddviti Árneshrepps segir að það sem málið sé enn í ferli hjá byggingafulltrúa sé það enn ekki komið inn á borð hreppsnefndar. Eins sé aðili hjá Verkís, sem vann matsskýrslu fyrir framkvæmdaaðilann og skipulagstillögurnar, að taka saman helstu atriði athugasemdanna fyrir hreppinn. „Það tekur alltaf mikinn tíma að finna niðurstöðu úr svona löguðu,“ segir Eva Sigurbjörnsdóttir oddviti. Fundur var í  hreppsnefnd á mánudag, viku eftir að athugasemdafrestur rann út. Hún á von á því að málið verði tekið fyrir á næsta fundi en nefndin fundar um það bil mánaðarlega.

Á síðasta fundi hreppsnefndarinnar var hins vegar rætt bréf sem hafði borist frá VesturVerki um mögulega kostnaðarþátttöku við lagningu hitaveitu í hluta hreppsins. Heitt vatn er í landi jarðarinnar Krossness og segir Eva eiganda hennar jákvæðan fyrir verkefninu. Hitaveita hefur verið til umræðu í hreppnum í langan tíma. Ýmis gögn eru því þegar fyrir hendi sem nú verða skoðuð. „Ég kallaði einnig eftir gögnum frá Orkubúi [Vestfjarða] því þeir hafa einnig verið að spá í að vera með í því að leggja lagnir í leiðinni fyrir sig.“

Hún segir að öll þessi gögn verði svo skoðuð og einnig óskað eftir frekari svörum frá VesturVerki við ýmsum spurningum sem hafi vaknað um mögulega aðkomu þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert