„Ég vil að menn hinkri aðeins,“ segir Sigurður Gísli Pálmason, stjórnarformaður IKEA, um Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. Hann er einn þeirra sem gerðu athugasemd við fyrirhugaða virkjun og vill að aðrir möguleikar verði skoðaðir betur.
Alls hafa athugasemdir frá sextán aðilum og umsagnir níu stofnana og sveitarfélaga borist vegna skipulagstillagna er varða Hvalárvirkjun í Árneshreppi á Ströndum. Athugasemdafrestur vegna tillagnanna rann út 16. október.
VesturVerk, sem er í meirihlutaeigu HS Orku, hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja fimm stíflur við fjallavötn. Virkjunin yrði 55 megavött að afli og yrði raforkan að minnsta kosti fyrstu árin og áratugina að stórum hluta flutt frá Vestfjörðum.
„Óbyggð víðerni, náttúra og menning Árneshrepps eru einstakar auðlindir,“ segir Sigurður í athugasemd sinni en hann segir að nái uppbygging Hvalárvirkjunar fram að ganga muni verða óafturkræf breyting þar á.
Hann vill frekar að gerð verði kostakönnun á þeim möguleika að svæðinu verði breytt í þjóðgarð og mun hann ábyrgjast greiðslu vegna þess.
„Ég hef tröllatrú á hugmyndinni um þjóðgarð. Ég tel að það hafi verið sýnt fram á það í Vatnajökulsþjóðgarði og í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi. Við höfum orðið vitni að því að á undraskömmum tíma hefur orðið til fjöldinn allur af störfum í kringum Vatnajökulsþjóðgarð. Þar eru tíu manns í heilsársstarfi og sumarstörfin skipta tugum,“ segir Sigurður.
Hann segir að störfin í kringum þjóðgarð yrðu fleiri en þau sem vænta mætti með komu virkjunar og starfsemi þjóðgarðs gæti orðið aðdráttarafl fyrir fólk á öllum aldri, ekki síst brott flutt ungt fólk.
Sigurður bendir á að upphaflega hafi staðið til að fjögur störf yrðu tengd virkjuninni. „Núna kemur í ljós að þessuyerði stýrt með ljósleiðara úr Reykjavík og það yrði enginn í vinnu á Ströndum.“
Hann vill meina að virkjanakostinum hafi verið stillt upp sem eina kostinum fyrir sveitarstjórn Árneshrepps. „Ég vil endilega að menn doki aðeins við og láti fara fram alvöruathugun á þjóðgarðshugmynd,“ segir Sigurður og telur að þetta yrði einstakur garður.
„Þessi þjóðgarður yrði einstakur vegna þess að fólk væri með fasta búsetu innan hans. Þetta yrði eftirsóttur staður fyrir ferðamenn til að heimsækja. Mér finnst það augljóst að þetta er spennandi tækifæri fyrir samfélagið á Ströndum. Virkjunin er bara góð hugmynd fyrir strákana sem eiga VesturVerk og HS Orku.“