„Við bætum við okkur í öllum kjördæmum, nema Norðvestur,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í beinni útsendingu á RÚV. Hún sagði að tölurnar, eins og þær eru núna, væru í takt við kannanir föstudagsins.
Hún sagði að vinstri vængurinn væri að styrkjast í íslenskum stjórnmálum, og vísaði til stuðningsins við VG og Samfylkinguna. „Staðan er ný og það eru átta flokkar á þingi. Þetta verður öðruvísi þing.“
Katrín minnti á að hún hefði sagt að stjórnmálamenn þyrftu að breyta því hvernig þeir ynnu saman á Alþingi. „Þessi staða mun reyna verulega á okkur til að breyta vinnubrögðunum,“ sagði hún.
Hún sagði að markmiðið ætti að vera að stunda stjórnmál sem myndu ekki ala af sér pólitískan óstöðugleika.