Hópur sem við höfum verulegar áhyggjur af

Flestir sem skilgreinast utangarðs í borgarsamfélaginu eru á aldrinum 21-40 …
Flestir sem skilgreinast utangarðs í borgarsamfélaginu eru á aldrinum 21-40 ára, eða um helmingur. Þá eru karlar í meirihluta, en þeir eru 238 á móti 111 konum. mbl.is/Golli

Aukning í neyslu og húsnæðisleysi eru meðal ástæðna fyrir fjölgun utangarðsfólks í Reykjavík. Þetta segir Sigþrúður Erla Arnardóttir, framkvæmdastjóri Þjónustumiðstöðvar Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða. Reykjavíkurborg birti skýrslu fyrir helgi þar sem fram kom að utangarðsfólki hafi fjölgað um 95% frá 2012. Í júní á þessu ári voru 349 ein­stak­ling­ar skráðir sem utang­arðs, en 2012 var fjöldinn 179.

Sigþrúður segir breytta skilgreiningu og hugarfarsbreytingu hjá starfsmönnum velferðarsviðs, landslæknisembættisins, Fangelsismálastofnunar, Rauða krossins og SÁÁ um það hverjir teljast utangarðs þó einnig eiga þátt í þessari miklu aukningu. „Fjölgunin er þó engu að síður greinileg,“ segir hún.

„Við erum að sjá aukningu hjá fólki sem á við geðræna erfiðleika að etja sem þarf á þjónustu að halda. Það er líka aukning í neyslu og það er að breytast svolítið, þannig að það er þarna hópur sem við höfum verulegar áhyggjur af og sem við viljum reyna að koma til móts við sem sveitarfélag,“ útskýrir Sigþrúður. „Til að svo megi verða verðum við þó að eiga gott samstarf við heilbrigðiskerfið.“

Yngri krakkar að koma inn

Flest­ir sem skil­grein­ast utang­arðs í borg­ar­sam­fé­lag­inu eru á aldr­in­um 21-40 ára, eða um helm­ing­ur og segir Sigþrúður ástæðu þess þríþætta. „Það er ákveðin aukning í neyslu sem veldur því að við erum að sjá yngri krakka koma inn. Svo sjáum við að það er fjöldi ótímabærra dauðsfalla tilkominn vegna neyslu og við vitum að þeir lifnaðarhættir sem fylgja því að vera utangarðs eru hættulegir og geta jafnvel verið lífshættulegir,“ segir hún og útskýrir að heilsu fólk hraki þar með oft hraðar en ella. Þá sé líka alltaf eitthvað um að hluti hópsins nái að vinna sig út úr aðstæðunum.

33% hópsins hafa verið utangarðs í lengur en tvö ár …
33% hópsins hafa verið utangarðs í lengur en tvö ár og hefur ákveðinn hluti þess hóps verið í þessari stöðu til margra ára. mbl.is/ Kristinn Ingvarsson

Karlar eru í meirihluta þeirra sem teljast utangarðs, en þeir eru 238 á móti 111 konum. „Við sjáum að tengslanetið rofnar oft hraðar hjá körlum,“ segir Sigþrúður. „Konurnar hafa önnur úrræði til að þess að koma sér inn á heimili en karlarnir.“

Ekki hópur sem endist ekki í núverandi meðferðarúrræðum

Áfeng­is­vandi og mis­notk­un annarra vímu­efna voru tal­in helsta or­sök þess að ein­stak­ling­ar lendi utang­arðs en næst­al­geng­asta or­sök­in eru geðræn vanda­mál. 80% þeirra 142 utang­arðsmanna sem eru með geðræn­an vanda glíma einnig við áfeng­is- og vímu­efna­vanda. Sigþrúður segir þurfa að finna lausn fyrir þennan hóp og með aðkomu heilbrigðiskerfisins.

„Við þurfum miklu sterkari innkomu og okkur vantar meðferðarúrræði fyrir hópinn. Þetta er ekki hópur sem endist í okkar skilgreindu meðferðarúrræðum í dag. Þetta fólk þarf oft annars konar nálgun heldur en hópurinn sem kemur sjálfviljugur og vill fá þjónustu.“

Hún bendir á að oft sé þetta fólk sem ekki vilji fá aðkomu og því sé samstarf við skaðaminnkandi úrræði Rauða krossins, Frú Ragnheiði, mikilvægt. „En til þess þurfum við að hafa heilbrigðiskerfið líka með okkur,“ segir Sigþrúður og kveður fjárskort ráða meiru um samstarfsleysið en skort á vilja. „Kerfið er líka svolítið fast og á oft á tíðum erfitt með að bregðast við þegar við erum með mjög erfiðan hóp.“

Þörf fyrir öldrunarþjónustu 

33% hópsins hafa verið utangarðs í lengur en tvö ár og segir Sigþrúður ákveðinn hóp hafa verið í þessari stöðu til margra ára. „Við höfum verið að leitast eftir að fá hvíldarinnlögn og vistunarmat fyrir hóp af öldruðum,“ segir hún. Ekki séu allir þeirra gamlir í árum talið, en þeim hraki og þurfi á öldrunarþjónustu að halda. „Það hefur ekki gefist sérlega vel,“ segir hún. „Við erum að óska eftir að það verði settar upp þjónustuíbúðir fyrir ákveðinn hóp til að geta brugðist við þessari hröðu öldrun. Engin slík úrræði eru til boða í dag og það þarf að vinna öðruvísi með þennan hóp en hefðbundna kerfið gerir ráð fyrir.“

Þennan vanda vilji borgin takast á við með því að koma upp þjónustuíbúðum. „Við viljum sjá eflingu þeirra sem eiga við tvíþættan vanda að etja, bæði geðrænan og fíkn. Við þurfum að sjá úrræði fyrir þá og að reyna að vinna þetta með heilbrigðisyfirvöldum,“ segir Sigþrúður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert