Vægi atkvæða nær tvöfalt í NV-kjördæmi

2.690 kjósendur voru að baki hverju þingsæti í Norðvesturkjördæmi, samanborið …
2.690 kjósendur voru að baki hverju þingsæti í Norðvesturkjördæmi, samanborið við 5.346 í Suðvesturkjördæmi. mbl.is/Eggert

Samfylkingin hefði fengið einn þingmann til viðbótar á kostnað Framsóknarflokksins í nýafstöðnum kosningum, ef atkvæði landsins hefðu jafnt vægi. Vakin er athyli á því í frétt á vef RÚV að misvægi atkvæða milli kjördæma hafi aukist í síðustu tvennum kosningum og fari nú nærri því að brjóta gegn ákvæðum stjórnarskrár.

Segir í fréttinni að Ísland hafi gengið lengst varðandi misvægi atkvæða, þó að það þekkist hjá öðrum norrænum löndum.

Mun færri kjósendur séu að baki hverju þingsæti á landsbyggðinni en á Suðvesturhorninu, en misvægi atkvæða hafi verið sett þau mörk í stjórnarskrá að vægi atkvæða í einu kjördæmi megi ekki vera tvöfalt meira en í öðru kjördæmi. Verði slík breyting á íbúafjölda þá þurfi að færa til þingsæti milli kjördæma.

En megin rökin fyrir misvæginu eru sögð þau að íbúar á þéttbýlli svæðum, einkum í nágrenni höfuðborgarsvæðisins njóti góðs af nálægð við „pólitíska miðstöð landsins og stofnanir“ sem réttlæti aftur á móti að íbúum í dreifðari byggðum séu tryggð meiri áhrif í kosningum.

Segir RÚV að grannt hafi verið fylgst með því frá aldamótum hvort vægi atkvæða í fámennasta kjördæminu, Norðvestur, fari yfir mörkin og verði tvöfalt á við Suðvesturkjördæmi. Það hafi gerst bæði í kosningunum 2003 og 2009 og í bæði skiptin hafi sitt hvort þingsætið flutt á milli. Síðan hafi hlutfallið verið innan marka, en þó hafi hlutfallið aukist á allra síðustu árum.

Í kosningunum á laugardag hafi 2.690 kjósendur verið að baki hverju þingsæti í Norðvesturkjördæmi, samanborið við 5.346 í Suðvesturkjördæmi. Hlutfallið sé 199% og á barmi þess að fara yfir stjórnarskrárbundin mörk, sem eru 200%. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka