Vilja ekki vera uppfyllingarefni fyrir kalla

Fjölmenni var á fundi um kvennaframboð sem Sóley Tómasdóttir hélt …
Fjölmenni var á fundi um kvennaframboð sem Sóley Tómasdóttir hélt í gærkvöldi. Sóley segir að ákveðið hafi verið að hittast aftur og stofna málefnahópa, halda starfsdag og fara í málefnavinnu og sjá hvað komi út úr því. mbl.is/Kristinn Magnússon

Konur eru alveg til í að fara í pólitík ef það er vettvangur fyrir þær, en þær eru ekki að koma inn sem eitthvað uppfyllingaefni fyrir kalla sem þurfa á konum að halda til að þeirra framboð líti betur út. Þetta sagði Sóley Tómasdóttir, fyrrverandi borgarfulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í morgunþætti Rásar 2 í morgun.

Fjöldi kvenna mætti í gærkvöldi til fundar um kvennaframboð sem Sóley bauð til á Hótel Sögu og segir hún mikla stemningu hafa verið á fundinum. „Það var ákveðið að hittast aftur og stofna málefnahópa, halda starfsdag og fara í málefnavinnu og sjá hvað kemur út úr því,“ segir Sóley. Ekki sé langt í næstu sveitastjórnarkosningar og því sé ágætt að vera vel undirbúin ef að til kvennaframboðs komi.

Algeng skýring sumra flokka þegar gagnrýnt er að þeir hafi fáar konur í sinni forystusveit er að erfitt sé að fá konur inn í pólitík. Sóley segir þá skýringu ekki allskostar rétta. „Þá hugsar maður þarna er flokkur eins og Miðflokkurinn, sem er bara kallaflokkur og er búinn til í kringum einn kall. Það er eðlilega erfitt að fá konur til að koma inn og tala fyrir eitthvað kallaframboð,“ segir Sóley. „Konurnar sem voru þarna í gær voru sammála um að þær væru alveg til í að fara í pólitík.“

Spurð hvort ekki sé erfitt að sameina ólík stefnumál undir kvennaframboði segir Sóley ekkert málefni vera óviðkomandi femínisma. „Það að koma femínisma inn í alla málaflokka er grundvöllur kvennaframboðs.“

Segist Sóley telja að kvennaframboð muni einnig gagnast öðrum flokkum. „Ég hugsa að það yrði mjög erfitt fyrir Sjálfstæðisflokkinn í vor að að stilla upp kallalista ef það er einhver kvennalisti líka. Ég held í alvörunni að kvennaframboð mundi hjálpa konum í öllum flokkum. Það myndi líka hjálpa konum og femínistum að koma femínískum málefnum að.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert