Zúistar kæra starfsmann sýslumanns

Átök hafa verið um yfirráð um trúfélag zúista.
Átök hafa verið um yfirráð um trúfélag zúista. Mynd/Facebooksíða Zúista

Trúfélagið zuism hefur lagt fram kæru á hendur starfsmanni sýslumannsins á Norðurlandi eystra, „vegna alvarlegra brota í starfi.“ Félagið hefur jafnframt kært fyrrverandi forstöðumann, Ísak Andra Ólafsson, og þá fjóra einstaklinga sem reyndu með honum að ná yfirráðum í félaginu árið 2015. Þetta kemur fram í kæru sem mbl.is hefur undir höndum.

Forsaga málsins er rakin í kærunni. Fram kemur að það hafi komið stjórn félagsins í opna skjöldu þegar Ísak hafi kynnt sem sig forstöðumann zúista í lok árs 2015. Við nánari skoðun hafi komið í ljós að umræddur starfsmaður sýslumanns hafi í Lögbirtingablaði skorað á þá sem töldu sig veita félaginu forstöðu að gefa sig fram innan 14 daga frá birtingu auglýsingarinnar. Stjórn zúista eða félagið sjálft hafi ekki fengið tilkynningu frá starfsmanni sýslumanns áður en áskorunin var birt. Þeir hafi heldur enga tilkynningu fengið um að breytingar hefðu verið gerðar á skráðum forstöðumanni félagsins.

„Þannig hófust þessi afskipti [starfsmanns sýslumanns] af kæranda og lauk, algerlega án vitneskju kæranda og stjórnenda kærenda, enda hafði áskorun í Lögbirtingablaði farið framhjá þeim.“

Tók hartnær tvö ár að svara erindinu

Fram kemur að forsvarsmenn zúista hafi árangurslaust sett sig í samband við hinn hópinn og beðið þá að láta af háttsemi sinni. Þeir hafi talið sig líka hafa tilkall til félagsins. Félagið hafi þá kvartað til starfsmanns sýslumanns og krafist þess að Ágúst Arnar yrði skráður forstöðumaður þess, í samræmi við lögmæta ákvörðun félagsins. „Jafnframt var [starfsmanni sýslumanns] bent á ólögmæti þeirrar ákvörðunar að skrá Ísak Andra Ólafsson sem forstöðumann.“

Fram kemur að það hafi tekið starfsmann sýslumanns hartnær tvö ár að svara erindinu, þrátt fyrirfjölmargar ítrekanir frá félaginu og umboðsmanni Alþingis. Með þessu hafi hann „lamað starfsemi trúfélagsins með grófum hætti.“

Ágúst Arnar Ágústsson er nú í forsvari fyrir félagið.
Ágúst Arnar Ágústsson er nú í forsvari fyrir félagið. Mynd / Aðsend

Kæran á hendur starfsmanni sýslumanns er í þremur liðum. Fyrsta atriðið miðar að því að starfsmaðurinn hafi synjað eða af ásettu ráði farist fyrir að gera það sem honum er boðið á löglegan hátt, og er þar vísað til þeirrar tafar sem varð á að bregðast við erindi zúista. Í öðru lagi er honum gefið að sök að hafa þóst ekki kannast við erindi zúista í stjórnsýslumáli sem rekið var vegna ólögmætrar skipunar annars forstöðumanns. Honum er jafnframt gefið að sök að hafa eytt sönnunargögnum í formi tölvupósta.

Í þriðja lagi er farið fram á refsiþyngingarhemild vegna þess að umræddur opinber starfsmaður hafi misnotað stöðu sína. „Að eyða sönnunargögnum í stjórnsýslumáli til þess að hafa áhrif á niðurstöðu máls er með grófari brotum sem opinber starfsmaður getur falist,“ stendur í kærunni. Með því hafi hann reynt að skerða réttarstöðu kæranda í opinberu máli.

Zúistar lögðu fram kæru á hendur Ísaki Andra í mars í fyrra. Við þá kæru er nú bætt að þeir sem sögðust hafa verið í stjórn zúista með Ísaki, hafi gerist sekur um sömu brot á Ísak. Þeir fjórir aðilar séu því til viðbótar kærðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka