Áfram í varðhaldi grunaður um smygl

Norræna.
Norræna. mbl.is/Sigurður Bogi

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá því á föstudaginn yfir manni sem er grunaður um að hafa reynt að smygla miklu magni af afmetamínvökva í bíl sem var um borð í Norrænu.

Héraðsdómur framlengdi gæsluvarðhald mannsins til 24. nóvember og hefur Hæstiréttur staðfest úrskurðinn.

Maður­inn hef­ur setið í gæslu­v­arðhaldi frá 25. ág­úst en annar maður er einnig í gæsluvarðhald vegna málsins. 

Í greinargerð lögreglu kemur fram að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu aðstoði nú lögreglustjórann á Austurlandi við rannsókn á stórfelldum innflutningi fíkniefna hingað til lands.

Unnið hefur verið að því í samstarfi við pólsk yfirvöld að afla upplýsinga um mögulega samverkamenn mannanna, en það hefur ekki borið árangur hingað til.

Rannsókn málsins miðar vel áfram en nokkuð ber á milli í framburðum hinna ákærðu.

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að maðurinn sem um ræðir sé grunaður um „mjög stórfelldan” innflutning á fíkniefnum.

Þar kemur einnig fram að brotið geti varðað allt að 12 ára fangelsi.

„Dómurinn fellst á það með lögreglustjóra að brotið sé þess eðlis að með tilliti til almannahagsmuna sé nauðsynlegt að tryggja áfram að kærði gangi ekki laus á meðan mál hans sé til meðferðar hjá ákæruvaldi og dómstólum,“ segir í úrskurði héraðsdóms.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert