Brotalamir til vinstri og hægri

mbl.is/Hjörtur

Mikið hefur verið rætt um mikilvægi þess að koma á pólitískum stöðugleika í landinu í kjölfar þingkosninganna á laugardaginn og ekki síst af forystumönnum stjórnmálaflokkanna. Til þess þurfi að mynda ríkisstjórn sem tekið geti á aðkallandi málum líkt og innviðauppbyggingu í samgöngum og velferðarkerfinu og starfað á sem traustustum grunni.

Formaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, hefur talað um möguleikann á að mynda ríkisstjórn með fjórum til sex flokkum innanborðs með það að markmiði að skapa breidd og þá væntanlega um leið að tryggja aukinn þingstyrk að baki mögulegri stjórn. Þá skipti ekki eins miklu máli ef einhverjir þingmenn styðji ekki einstök stjórnarmál.

Komið hefur fram að í þessu sambandi kæmi mögulega til samstarfs Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, Framsóknarflokksins, Samfylkingarinnar og Pírata auk annaðhvort Viðreisnar eða Flokks fólksins. Eða beggja síðarnefndu flokkanna. Flestir þessara flokka tóku þátt í tilraun til þess að mynda fimm flokka ríkisstjórn eftir kosningarnar í fyrra.

VG, Framsóknarflokkurinn, Samfylkingin og Píratar hafa samanlagt 32 þingmenn sem er minnsti mögulegi meirihluti á þingi og sami fjöldi þingmanna og síðasta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hafði á bak við sig. Með Viðreisn yrði þingmannafjöldinn 36 og ef Flokkur fólksins bættist við yrði hann 40 þingmenn.

Þarf að sætta fleiri og ólíkari sjónarmið

Stjórnarsamstarf margra flokka er hins vegar tvíeggjað sverð. Slíkt samstarf getur skilað meiri þingstyrk en á móti kemur að sætta þarf fleiri og ólíkari sjónarmið. Sumir þessara flokka hafa átt gott samstarf frá síðustu kosningum. Það á fyrst og fremst við um VG, Framsókn og Samfylkinguna. Þá ekki hvað síst tveir fyrrnefndu flokkarnir.

Hins vegar hefur samstarfið við Pírata í stjórnarandstöðu verið erfiðara samkvæmt heimildum einkum úr röðum VG og er ástæða þess fyrst og fremst sögð sú að erfitt hafi oft þótt að henda reiður á því hvað gerðist næst innan þess flokks. Er þar ekki síst vísað í reglulegar deilur sem komið hafi upp innan þingflokks Pírata og innan flokksins sjálfs.

Hvað Viðreisn varðar var helsta ástæða þess að ekki tókst í tvígang að mynda fimm flokka ríkisstjórn síðasta vetur sögð sú að of langt hafi verið á milli flokksins og VG. Þáverandi varaformaður VG, Björn Valur Gíslason, hafði á orði í útvarpsviðtali í desember á síðasta ári að í sumum málum væri styttra frá VG til Sjálfstæðisflokksins en til Viðreisnar.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á Bessastöðum í gær.
Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, á Bessastöðum í gær. mbl.is/​Hari

Björn Valur nefndi þar meðal annars sjávarútvegs- og landbúnaðarmál en einnig liggur fyrir að Evrópumálin til að mynda yrðu ekki vandamál í samstarfi Sjálfstæðisflokksins og VG. Sá málaflokkur gæti hins vegar orðið VG erfiður í samstarfi við Samfylkinguna og Viðreisn og eftir atvikum Pírata að sama skapi líkt og gerðist eftir kosningarnar 2009.

Flokkur fólksins er hins vegar nýr á Alþingi og fyrir vikið þykir óvíst hvernig hann kunni að reynast í ríkisstjórnarsamstarfi. Talsverður fyrirvari er einnig gerður varðandi stefnu flokksins í útlendingamálum, þá einkum og sér í lagi vegna flóttafólks og hælisleitenda. Það á ekki síst við í röðum VG en einnig meðal annars innan Pírata og Samfylkingarinnar.

Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði þannig í lok september, skömmu eftir að síðasta ríkisstjórn féll, aðspurður hvort flokkur hans gæti starfað með Flokki fólksins að honum hefði þótt flokkurinn hafa talað „dálítið glannalega um flóttamenn og hælisleitendur“ og að sjá yrði til hvort „það færi ekki bara að víkja af þeirra stefnuskrá“.

Persónulegar deilur en ekki um málefni

Talað hefur einnig verið um þann möguleika að Sjálfstæðisflokkurinn, Framsóknarflokkurinn, Miðflokkurinn og Flokkur fólksins tækju höndum saman í ríkisstjórn. Slík stjórn hefði samtals 35 þingmenn á bak við sig. Hins vegar þykir alls óvíst hvort Framsóknarflokkurinn og Miðflokkurinn geta unnið saman í stjórnarsamstarfi í ljósi forsögunnar.

Bent hefur verið á í því sambandi að ágreiningur forystumanna Framsóknarflokksins og Miðflokksins sé ekki mikill málefnalega heldur fyrst og fremst persónulegur. Hægt sé að brúa málefnalegan ágreining en persónulegur ágreiningur, jafnvel þótt hægt yrði að leggja hann til hliðar, gæti hvenær sem er gosið upp á ný með skömmum fyrirvara.

Þriðji möguleikinn hefur einnig verið ræddur en það er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, VG og Framsóknarflokksins með 35 þingmenn að baki sér. Einnig hefur verið talað um Samfylkinguna í því sambandi en það þýddi 34 þingmanna meirihluta. Samfylkingin mun hins vegar vera mun áhugaminni um slíkt samstarf en Framsóknarflokkurinn.

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í bakgrunni.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í bakgrunni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG, viðraði þá hugmynd síðasta vetur að flokkur hennar myndaði ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni eftir að reynt hafði verið að mynda fimm flokka stjórn í tvígang en viðbrögð frá Samfylkingunni voru dræm. Framsóknarflokknum þótti ennfremur hugmyndin þá koma seint fram.

Helstu rök VG gegn samstarfi við Sjálfstæðisflokkinn og Framsóknarflokkinn fyrir ári voru þau að flokkurinn gæti ekki gengið inn í fráfarandi ríkisstjórnarsamstarf flokkanna tveggja. Um það er hins vegar ekki að ræða í dag. Framsóknarflokkurinn hefur ennfremur undir formennsku Sigurðar Inga Jóhannssonar lagt aukna áherslu á félagshyggju.

Hins vegar er ljóst að mögulegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn er mjög umdeilt innan VG. Flokksmenn á landsbyggðinni eru almennt séð jákvæðari fyrir því en þeir sem búa í höfuðborginni. Spurð ítrekað um mögulegt samstarf við Sjálfstæðisflokkinn hefur Katrín ekki útilokað neitt en lagt áherslu á að VG myndi nálgast málin út frá málefnunum.

Hvort til stjórnarsamstarfs þessara þriggja flokka kemur að lokum á eftir að koma í ljós en varla kemur þó til þess fyrr en annað hefur verið skoðað mjög alvarlega. Hins vegar kunna brotalamir í öðru mögulegu stjórnarsamstarfi að leiða til þess að lokum að þessi kostur þyki líklegastur til þess að tryggja þann pólitíska stöðugleika sem talin er þörf á.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert