Sagðist vera liðsmaður Ríkis íslams

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

Hæstiréttur Íslands hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem sótti um hæli hérlendis árið 2015.

Maðurinn, sem segist vera frá Marokkó, var í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 27. nóvember.

Í grein­ar­gerð lög­reglu kom fram sam­kvæmt úr­sk­urði héraðsdóms í síðasta mánuði að maður­inn segðist hafa setið í fang­elsi í fimm mánuði í Marokkó vegna þátt­töku sinn­ar í and­spyrnu­hreyf­ingu.

Mann­in­um var synjað um hæli hér á landi, síðast með ákvörðun kær­u­nefnd­ar út­lend­inga­mála 26. janú­ar síðastliðinn. Unnið hef­ur verið að því að vísa hon­um á brott frá Íslandi og í því skyni hef­ur embætti rík­is­lög­reglu­stjóra verið í sam­skipt­um við yf­ir­völd í mót­tök­uland­inu.

Fram kom að lög­regla hafi ít­rekað haft af­skipti af mann­in­um síðustu mánuði, meðal ann­ars vegna hót­ana og ann­ar­legr­ar hegðunar, of­beld­is og fíkni­efna­laga­brota.

Svo­kallað ógn­ar­mat fór fram hjá embætti rík­is­lög­reglu­stjóra vegna hans þar sem óskað var eft­ir upp­lýs­ing­um frá er­lend­um lög­gæslu­stofn­un­um. Við gerð mats­ins kom í ljós að maður­inn hafði birt mynd á Face­book-síðu sinni 1. ág­úst síðastliðinn tengda hryðju­verka­sam­tök­un­um Ríki íslams og ritað Ísland und­ir mynd­ina.

Skrifaði áróður tengdan Ríki íslams

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því á mánudag kemur fram að ríkislögreglustjóra hafi borist nýjar upplýsingar sem urðu til þess að ógnarmatið hafi verið uppfært 27. september.

„Kærði mun hafa meðan hann sætti gæsluvarðhaldi í september sýnt af sér ógnandi og niðrandi hegðun gagnvart bæði samföngum sínum og starfsmönnum. Kærði hafi sagst vera liðsmaður ISIS hryðjuverkasamtakanna og skrifað áróður tengdan samtökunum í klefa sínum, en RLS hafi ekki fengið upplýsingar sem staðfesta að kærði sé tengdur ISIS. Þá hafi kærði haft uppi hótanir og ógnandi hegðun gagnvart starfsmönnum, sem og almenningi,“ segir í úrskurðinum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka