Hæstiréttur Íslands hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir manni sem sótti um hæli hérlendis árið 2015.
Maðurinn, sem segist vera frá Marokkó, var í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald til 27. nóvember.
Í greinargerð lögreglu kom fram samkvæmt úrskurði héraðsdóms í síðasta mánuði að maðurinn segðist hafa setið í fangelsi í fimm mánuði í Marokkó vegna þátttöku sinnar í andspyrnuhreyfingu.
Manninum var synjað um hæli hér á landi, síðast með ákvörðun kærunefndar útlendingamála 26. janúar síðastliðinn. Unnið hefur verið að því að vísa honum á brott frá Íslandi og í því skyni hefur embætti ríkislögreglustjóra verið í samskiptum við yfirvöld í móttökulandinu.
Fram kom að lögregla hafi ítrekað haft afskipti af manninum síðustu mánuði, meðal annars vegna hótana og annarlegrar hegðunar, ofbeldis og fíkniefnalagabrota.
Svokallað ógnarmat fór fram hjá embætti ríkislögreglustjóra vegna hans þar sem óskað var eftir upplýsingum frá erlendum löggæslustofnunum. Við gerð matsins kom í ljós að maðurinn hafði birt mynd á Facebook-síðu sinni 1. ágúst síðastliðinn tengda hryðjuverkasamtökunum Ríki íslams og ritað Ísland undir myndina.
Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur frá því á mánudag kemur fram að ríkislögreglustjóra hafi borist nýjar upplýsingar sem urðu til þess að ógnarmatið hafi verið uppfært 27. september.
„Kærði mun hafa meðan hann sætti gæsluvarðhaldi í september sýnt af sér ógnandi og niðrandi hegðun gagnvart bæði samföngum sínum og starfsmönnum. Kærði hafi sagst vera liðsmaður ISIS hryðjuverkasamtakanna og skrifað áróður tengdan samtökunum í klefa sínum, en RLS hafi ekki fengið upplýsingar sem staðfesta að kærði sé tengdur ISIS. Þá hafi kærði haft uppi hótanir og ógnandi hegðun gagnvart starfsmönnum, sem og almenningi,“ segir í úrskurðinum.