Guðni boðar Katrínu til fundar

Katrín Jakobsdóttir á Bessastöðum eftir kosningarnar.
Katrín Jakobsdóttir á Bessastöðum eftir kosningarnar. mbl.is/​Hari

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur boðað Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, til fundar við sig á Bessastöðum í dag, fimmtudaginn 2. nóvember, klukkan 16.00. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forsetans. Katrín staðfestir við mbl.is að hún muni á fundinum óska eftir umboði til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna.

Í morgun áttu fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknar og Pírata fund í húsnæði Alþingis þar sem rætt var hvort málefnalegur grundvöllur væri fyrir stjórnarsamstarfi. Samkvæmt heimildum mbl.is náðist samkomulag um það á fundinum að þessir fjórir flokkar myndu hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Katrín mun því óska eftir því við forseta Íslands að hún fái umboð til stjórnarmyndunarviðræðna.

Meðal þeirra sem sátu fund­inn, samkvæmt heimildum mbl.is, voru Þór­hild­ur Sunna Ævars­dótt­ir og Smári McCart­hy, frá Pírötum, Lilja Dögg Al­freðsdótt­ir, vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, Katrín Jak­obs­dótt­ir, formaður Vinstri grænna, Logi Már Ein­ars­son, formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, og Odd­ný G. Harðardótt­ir og Ágúst Ólaf­ur Ágústs­son, þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Þingflokkur Samfylkingarinnar fundar nú um niðurstöður fundarins í morgun, og ætla má að hinir þingflokkarnir fundi einnig áður en Katrín hittir Guðna á Bessastöðum síðar í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert