Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, hefur boðað Katrínu Jakobsdóttur, formann Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs, til fundar við sig á Bessastöðum í dag, fimmtudaginn 2. nóvember, klukkan 16.00.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forsetans. Katrín staðfestir við mbl.is að hún muni á fundinum óska eftir umboði til formlegra stjórnarmyndunarviðræðna.
Í morgun áttu fulltrúar Vinstri grænna, Samfylkingar, Framsóknar og Pírata fund í húsnæði Alþingis þar sem rætt var hvort málefnalegur grundvöllur væri fyrir stjórnarsamstarfi. Samkvæmt heimildum mbl.is náðist samkomulag um það á fundinum að þessir fjórir flokkar myndu hefja formlegar stjórnarmyndunarviðræður. Katrín mun því óska eftir því við forseta Íslands að hún fái umboð til stjórnarmyndunarviðræðna.
Meðal þeirra sem sátu fundinn, samkvæmt heimildum mbl.is, voru Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Smári McCarthy, frá Pírötum, Lilja Dögg Alfreðsdóttir, varaformaður Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, og Oddný G. Harðardóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmenn Samfylkingarinnar.
Þingflokkur Samfylkingarinnar fundar nú um niðurstöður fundarins í morgun, og ætla má að hinir þingflokkarnir fundi einnig áður en Katrín hittir Guðna á Bessastöðum síðar í dag.