Aðstöðu til áningar og útsýnis meðfram hringveginum er víða verulega ábótavant og hætta á aukinni slysatíðni verði ekki gerðar úrbætur. Í nýrri úttekt sem birt hefur verið á vefsíðu Vegagerðarinnar eru 102 staðir skráðir á hringveginum þar sem sjá má ferðafólk stoppa ítrekað, á vegi eða í vegkanti, til myndatöku og þar sem lítil sem engin aðstaða er fyrir hendi.
Ástandinu á hverjum stað við hringveginn er lýst í úttektinni og bent á hverra úrbóta er þörf.
Þar segir m.a. að bæði austan og vestan Jökulsárlóns „er stoppað hvar sem er og ekið út af veginum þar sem það er mögulegt. Góð samlíkingin af umferðarástandi svæðisins yfir sumartímann, er við hið villta vestur. Núverandi brú er flöskuháls og fast við báða enda hennar liggja misbrattar tengingar út frá hringveginum til beggja handa.“
„Þá minntust allir þeir bílstjórar sem rætt var við á núverandi útskot í Kömbunum ofan Hveragerðis [...]. Þaðan er útsýni stórkostlegt og ferðafólk vill undantekningalaust fá að stoppa þar til myndatöku. Það er aftur á móti nær útilokað vegna aðstöðuleysis, sér í lagi fyrir rútur.“
„Allur kaflinn norðan brúar yfir Jökulsá í Lóni er undirlagður í myndastoppi ferðamanna sem stoppa bíla sínar hist og her á vegi og í vegkanti. [...]legu vegarins á þessum stað er ábótavant og því varhugavert að stoppa m.t.t. umferðaröryggis. Þörf er á úrbótum m.t.t. aðstöðu fyrir ferðafólk.“
„Á Hlíðarsandi er mjög vinsælt að stoppa til myndatöku og algengt að fólk aki út í svartan sandinn til að komast niður að sjó, en festi sig á leiðinni í gljúpum sandinum. Má sjá för eftir bílar út um allan sandinn. Björgunarsveitir á svæðinu hafa í nógu að snúast við að losa bíla ferðamanna úr sandinum.“