Skjálftavirkni hefur aukist í Öræfajökli á undanförum mánuðum. Nú um klukkan níu í kvöld mældust tveir skjálftar að stærð 1,1 og 1,3 með korters millibili. Í síðustu viku settu starfsmenn Veðurstofunnar upp tvo nýja jarðskjálftamæla við Öræfajökul, við Háöxl, suður af jöklinum, og við Kvísker, austan megin.
Einar Hjörleifsson, náttúruvásérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að skjálftavirkni í Öræfajökli hafi aukist smám saman frá árinu 2016 og mælast skjálftar fleiri núna en áður. „Það var ákveðið að bæta við mælum þarna á svæðinu út af því að skjálftavirknin jókst,“ segir Einar.
„Við höfum ekki miklar áhyggjur af þessum litlu skjálftum, en ef við sjáum hrinur koma þá fylgjumst við betur með,“ segir Einar. Til stendur að efla vöktun í kringum Öræfajökul enn frekar í nóvember með fjölgun mælitækja svo sem GPS, vatnamælum og gasmælum.